Viðskipti innlent

Bankarnir verði að lækka vexti jafn­hratt og þeir hækkuðu

Árni Sæberg og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Fjármálaráðherra segir bankana ekki mega sitja á vaxtalækkunum.
Fjármálaráðherra segir bankana ekki mega sitja á vaxtalækkunum. Vísir/Vilhelm

Fjármála- og efnahagsráðherra segir mikilvægt að stýrivaxtalækkanir skili sér til neytenda, ekki hægar en stýrivaxtahækkanir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir gleðilegt að Seðlabanki Íslands hafi ákveðið að lækka stýrivexti í fyrsta skipti síðan árið 2020 á miðvikudag.

„Ég var búinn að lýsa því að ég væri vongóður með að það gerðist. Ástæðan er sú að við höfðum séð mikla kólnun á hagkerfinu. Við í fjármálaeftirlitinu höfum haft áhyggjur af því að það gæti snöggkólnað hraðar. Við erum að leita eftir þessari mjúku lendingu. Þannig að viðbrögðin voru jákvæð. Þó að lækkunin hafi ekki verið mikil þá skiptir hún máli upp á væntingar til framtíðar,“ segir Sigurður Ingi. 

Rætt var við hann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Ferlið hafið

Sigurður Ingi segist telja að haldi þau teikn, sem hafi verið á lofti síðustu vikur og mánuði, áfram þá sé alveg ljóst að vaxtalækkunarferlið sé hafið.

„Við munum sjá áframhaldandi hjöðnun á verðbólgunni og vonandi vöxtunum jafnhratt niður,“ segir Sigurður Ingi.

Hækkunin hafi hvatt til lækkunar

Loks segir Sigurður Ingi að hann hafi áður sagt að ákvörðun stóru viðskiptabankanna þriggja um að hækka vexti verðtryggðra útlána, án undanfarandi stýrivaxtahækkunar, myndi hafa þau áhrif að enn frekari kólnun yrði og drægi úr þenslu, sem myndi hvetja til vaxtalækkunar.

Seðlabankastjóri sagði, á fundi þar sem ákvörðun peningastefnunefndar var rökstudd, að vaxtahækkun bankanna hefði vegið þungt í ákvörðun hans um vaxtalækkun.

„Viðskiptaráðherra hefur líka látið greina það í skýrslu að þeir hafi kannski farið aðeins fram úr sér. Það var sjónarmið sem ég heyrði líka Seðlabankann hafa áhyggjur af. Ég hef líka sagt að ef að svo væri, þá þyrftu þeir auðvitað að endurskoða það. En það er mikilvægt að stýrivaxtalækkanir skili sér til neytenda og bankarnir sitji ekki á þeim.“

Þá kannski jafnhratt og þessar hækkanir skiluðu sér?

„Ekki síður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×