Viðskipti innlent

Telur ljóst að vaxtalækkunarferlið sé hafið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vilhjálmur er ánægður með tíðindi morgunsins.
Vilhjálmur er ánægður með tíðindi morgunsins. Vísir/Vilhelm

Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir ákvörðun Seðlabanka um lækkun vaxta um 25 punkta vera fagnaðarefni. Hann segir þó að hann hefði viljað sjá lækkun upp á 50 punkta en segir ljóst að vaxtalækkunarferlið sé hafið.

„Ég ætla bara að leyfa mér að fagna þessu þó ég hefði vissulega viljað sjá lækkun upp á 0,50 stig. En það sem við lögðum upp með í kjarasamningum í mars er að skapa hér skilyrði fyrir lækkandi verðbólgu. Það er að takast og verðbólgan komin í 5,4 prósent,“ segir Vilhjálmur í samtali við Vísi. Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti ákvörðun sína um lækkun stýrivaxta í morgun sem fara úr 9,25 prósent í 9,0 prósent.

„Og taktu eftir því að þetta er í fyrsta sinn í fjögur ár sem stýrivextir lækka. Þetta er fagnaðarefni fyrir íslensk heimili og skuldsett fyrirtæki. Vonandi verða mun kröftugri vaxtalækkanir á komandi mánuðum, ég vona svo innilega að verðbólgan haldi áfram að lækka næstu mánuði og það er margt sem bendir til þess,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir mikilvægt að fyrirtæki, sveitarfélög og aðrir aðilar taki höndum saman. Mikilvægt sé að stuðlað sé að því að verðlagi verði haldið niðri svo þeim árangri verði náð fyrr en ella.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×