Erlent

Rangt af Net­flix að halda því fram að Baby Reindeer væri „sönn saga“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fiona Harvey og Jessica Gunning í hlutverki Mörthu Scott.
Fiona Harvey og Jessica Gunning í hlutverki Mörthu Scott.

Dómari í Kaliforníu hefur komist að þeirri niðurstöðu að það hefði verið rangt af Netflix að halda því fram að þættirnir Baby Reindeer væru „sönn saga“ í upphafi þáttarins.

Þá segir hann framleiðendurna ekki hafa gert neina tilraun til að kanna sannleiksgildi handritsins né fela það hvaða manneskju sögupersónan Martha Scott væri byggð á.

Umrædd manneskja, Fiona Harvey, höfðaði mál á hendur Netflix og höfundi og aðalleikara Baby Reindeer, Richard Gadd, vegna ýmissa brota sem hún taldi sig hafa mátt þola þegar aðdáendur þáttanna grófu það upp að hún væri Martha, konan sem ofsótti Gadd í fjölda ára.

Þættirnir byggja á upplifun Gadd en víkja frá staðreyndum að ýmsu leiti.

Dómarinn Gary Klausner sagði að ákvörðun Netflix um að staðhæfa að um „sanna sögu“ væri að ræða hefði haft það í för með sér að áhorfendur teldu það sem gerðist í þáttunum einnig hafa gerst í raunveruleikanum.

Þrátt fyrir að meint framganga Harvey í garð Gadd hefði verið skammarleg hefðu þættirnir hins vegar sýnt Mörthu í enn verra ljósi. Þannig væri til að mynda munur á káfi og kynferðisárás og áminning frá lögreglu vegna áreitis ekki það sama að vera ákærð og fangelsuð.

Gadd hefur sagt að Baby Reindeer og leikritið sem þættirnir byggja á hafa verið skáldaða útgáfu af upplifun hans og í júní greindi hann frá því í viðtali við Sunday Times að hann hefði haft efasemdir um að halda því fram í upphafi þáttanna að um væri að ræða „sanna sögu“.

Það hefði hins vegar verið ákvörðun Netflix að halda því fram.

Klausner sagði í ákvörðun sinni að framleiðendur hjá Netflix hefðu mátt vita að staðhæfingin væri röng og að áhorfendur myndu gera tilraunir til að finna hina raunverulegu Mörthu.

Hann neitaði því beiðni Netflix um að vísa málinu alfarið frá dómi og sagði Harvey heimilt að halda því til streitu að krefjast bóta vegna þeirrar andlegu þjáningar sem hún hefði upplifað vegna þáttarins. 

Með því að gera Mörthu að dæmdum glæpamanni sem hefði ráðist á persónu Gadd á ofbeldisfullan hátt hefði verið ráðist á grófan hátt gegn æru Harvey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×