Upp­gjörið: Kefla­vík - Þór Ak. 82-86 | Þór skellti meisturunum

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Þórsarar komust í úrslitaleik VÍS-bikarsins á síðustu leiktíð og unnu í dag Keflavík í Meistarakeppni KKÍ.
Þórsarar komust í úrslitaleik VÍS-bikarsins á síðustu leiktíð og unnu í dag Keflavík í Meistarakeppni KKÍ. VÍSIR/Diego

Keflavík tók á móti Þór Akureyri þegar Meistarar meistaranna kvenna fór fram í dag. Það voru ekki margir sem áttu von á því að Þór Akureyri gæti staðist snúninginn við Keflavík en annað kom á daginn og stelpurnar að norðan fóru með 82-86 sigur af hólmi.

Það voru Keflavíkurkonur sem unnu uppkastið og settu fyrstu fimm stigin á töfluna og byggðu upp smá forskot sem þær héldu út leikhlutann.

Keflavíkurkonur voru skrefinu á undan og ögn grimmari í baráttunni um lausa bolta. Anna Lára Vignisdóttir var mjög kraftmikil í upphafi og óhrædd við að keyra á körfuna fyrir Keflavík.

Eftir fyrsta leikhluta var það Keflavík sem leiddi með fimm stiga forskoti 24-19.

Þórsarar mættu í allt öðrum gír út í annan leikhluta og snéru leiknum alveg við. Baráttan var allt önnur í Þórs liðinu sem voru að vinna mun fleiri seinni bolta og þær voru núna grimmari.

Það var mikil barátta í þessum leikhluta sem kristallaðist í því að á einum kafla var ekkert skorað í um fjórar mínútur þar sem liðin skiptust á góðri vörn og slæmum ákvarðanatökum til skiptist.

Það voru Þórsarar sem voru sterkari undir restina á leikhlutanum og jöfnuðu leikinn með tveim þristum frá Amandine Toi og Esther Fokke. Hrefna Ottósdóttir fór svo á línuna fyrir þrem stigum og setti öll ofan í og Þór Akureyri leiddu í hálfleik 34-37.

Keflavík kom með miklum látum út í síðari hálfleikinn og komst snemma sjö stigum yfir. Þórsarar voru þó aldrei langt undan.

Þegar líða tók á leikhlutann voru það Þórsarar sem reyndust hafa meiri orku og náðu að snúa leiknum sér í vil fyrir fjórða leikhluta 58-62.

Í fjórða leikhluta voru það Þórsarar sem voru sterkari og héldu út. Heimakonur komu með smá kafla þar sem þær hótuðu því að stela þessu en Þórsarar spiluðu þetta einstaklega vel undir restina og fóru með heldur sanngjarnan sigur þegar uppi er staðið 82-86.

Stjörnur og skúrkar

Maddison Anne Sutton var stórkostleg í liði Þórs Akureyri í dag. Þessi tölfræðilína 21 stig, 28 fráköst og 11 stoðsendingar er hreint ótrúleg! Var yfirburðar í dag.

Amandine Justine Toi var einnig mjög öflug í liði Þórs og var stigahæst í leiknum með 32 stig. Hún bætti við það sex fráköstum og tveim stoðsendingum.

Hjá Keflavík var það Thelma Dís Ágústsdóttir sem var atkvæðamest með 18 stig og bætt að auki við sex stoðsendingum og tveim fráköstum

Dómarinn

Dómararnir voru að mínu mati mjög flottir í dag. Ekkert sem hægt er að setja út á þá. Skiluðu flottu hlutverki í dag.

Stemingin og umgjörð

Það var ekki mikið um manninn fyst um sinn en þegar líða tók á leikinn fóru fleiri að týnast inn í sal. Þríhöfðinn hjá Keflavík vegur sennilega þungt þar en Keflavík spiluðu í úrslitum umspilsins á Laugardalsvelli fyrr í dag í knattspyrnu. Stemningin var mjög góð eftir því sem við fórum lengra inn í leikinn.

„Ég sé margt sem við getum verið betri í og getum lagað“

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, sagðist vissulega svolítið sár að sjá á eftir bikarnum.

„Við auðvitað erum á heimavelli og erum auðvitað meistarnir og við vildum að sjálfsögðu vinna bikar. Það var uppleggið og fín stemning fyrir leikinn og allt það. Ég vill bara óska Þór til hamingju. Þær lögðu gott lið hérna í Keflavík og þær voru bara betri heilt yfir og við verðum bara að læra af þessum leik, margt sem við getum lært.“

Keflavík byrjaði leikinn vel en náðu þó aldrei að hrista af sér Þór Akureyri sem á endanum náðu að snúa leiknum svo sér í vil og hafa sigurinn með góðum áhlaupum.

„Það var aldrei neitt þannig að Þór færi að gefa í. Þetta var svona barningur og jafnt allann leikinn. Ef ég hugsa bara um mitt lið þá voru mikið af mistökum og sóknarfráköst voru það sem fór með þetta í dag myndi ég segja.“

Daníel Andri Halldórsson talaði um haustbrag í þessum leik í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leik og tók Friðrik Ingi undir það.

„Já að ýmsu leyti þá er alveg hægt að gera það. Ég sé alveg margt sem að við getum verið betri í og getum lagað svo við erum langt frá því að vera komin á þann stað sem við munum verða þegar það líður á.“

Það vantaði marga lykilpósta hjá Keflavík í leiknum í dag og var Friðrik ekki viss með það hvenær von væri á öllum til baka.

„Ég veit það nú ekki alveg. Það eru einhverjar vikur í þessa leikmenn og svo erum við að leita af evrópskum leikstjórnanda og við höfum ekki fundið hann ennþá en á meðan staðan er þannig þá einbeitum við okkur af þeim leikmönnum sem voru hér í dag og ég vil meina að þegar uppi er staðið þá mun þetta bara hjálpa okkur í þeirri baráttu þó við vissulega söknum allra þessara frábæru leikmanna sem voru ekki með okkur í dag.“

Friðrik Ingi Rúnarsson vonast eftir því að sækja evrópskan leikstjórnanda fyrir mót.

„Já við erum að leita af honum en bara ekki búnar að finna þann rétta ennþá og það kemur bara í ljós hvenær það gerist.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira