Upp­gjörið: Þróttur - Þór/KA 0-0 | Marka­laust í Laugar­dalnum

Hinrik Wöhler skrifar
Úr leik liðanna fyrr í sumar.
Úr leik liðanna fyrr í sumar. vísir/diego

Þróttur og Þór/KA skildu jöfn þegar liðin áttust við á Avis-vellinum í dag. Hvorugt lið náði að skora þrátt fyrir álitleg færi í leiknum. Bæði lið sigla lygnan sjó í efri hluta Bestu deildar kvenna en Þór/KA situr í þriðja sæti á meðan Þróttur situr í því fimmta þegar ein umferð er eftir af Íslandsmótinu.

Gestirnir að norðan voru sterkari aðilinn til að byrja með. Þór/KA kom sér í ágætar stöður á síðasta þriðjungi vallarins án þess þó að reyna of mikið á Mollee Swift í marki Þróttar. Vörn heimakvenna stóðst pressuna ágætlega en töpuðu boltanum fljótt þegar þær reyndu að snúa vörn í sókn og sækja að marki Þór/KA.

Þróttur náði að létta róðurinn þegar leið á fyrri hálfleik en Freyja Karín Þorvarðardóttir átti skot sem fór hársbreidd fram hjá markinu eftir laglegt samspil við Kristrúnu Rut Antonsdóttur á 32. mínútu.

Norðankonur fengu ágæt skotfæri og þó nokkur föst leikatriði undir lok fyrri hálfleiks en náðu ekki að brjóta ísinn og staðan var markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Sandra María Jessen fékk upplagt tækifæri til að koma Þór/KA yfir á 55. mínútu eftir sofandahátt á miðjunni hjá Þrótti. Norðankonur unnu boltann og Sandra komst ein fyrir á móti Mollee Swift í marki Þróttar. Markvörðurinn tók gott úthlaup og lokaði markinu vel og kom í veg fyrir að gestirnir myndu ná forystu.

Sandra María Jessen fékk upplagt marktækifæri snemma í síðari hálfleik.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Hulda Ósk Jónsdóttir átti skot skömmu síðar við enda vítateigsins en líkt og rétt áður varði Mollee vel í marki Þróttar.

Heimakonur voru hársbreidd frá því að stela þremur stigum á síðustu andartökum leiksins en Melissa Alison Garcia átti skalla í markteignum eftir fyrirgjöf Caroline Murrey. Harpa Jóhannsdóttir var vandanum vaxin í markinu og náði að blaka boltanum frá.

Hvorugt lið náði að skora á Avis-vellinum í dag og var jafntefli niðurstaðan.

Atvik leiksins

Þróttur hefði getað stolið sigrinum í uppbótartíma þegar það losnaði um Melissu Alison Garcia í markteignum. Flestir leikmenn virtust vera búnir að sætta sig við markalaust jafntefli og hefði þetta verið reiðarslag fyrir norðankonur en Harpa Jóhannsdóttir sá við skalla Melissu.

Stjörnur og skúrkar

Norðankonur áttu heilt yfir hættulegri upphlaup og gerðu varnarmenn Þróttar vel að halda sóknarlínu gestanna í skefjum. Sóley María Steinarsdóttir og Jelena Tinna Kujundzic, miðverðir Þróttar, voru harðar í horn að taka og skiluðu góðu dagsverki.

Varnarlína Þróttar stóðst pressu norðankvenna.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Markverðir liðanna höfðu það náðugt í fyrri hálfleik en Mollee Swift, markvörður Þróttar, varði tvisvar meistaralega þegar norðankonur komust inn fyrir vörn Þróttar í síðari hálfleik. Sömuleiðis gerði Harpa Jóhannsdóttir vel í marki Þór/KA á síðustu mínútu leiksins þegar Melissa Alison Garcia fékk dauðafæri í markteignum.

Sandra María Jessen, framherji Þór/KA, hefur verið iðin við kolann á móti Þrótti í sumar en hún nagar sig sjálfsagt í handarbökin að ná ekki að nýta dauðafæri á 55. mínútu þegar hún komst ein inn fyrir.

Dómarar

Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson og varadómarinn Guðni Páll Kristjánsson skiptust á hálfleikjum þar sem sá fyrrnefndi skipti sér út af í hálfleik vegna meiðsla. Þeir þurftu ekki að taka á honum stóra sínum í dag. Þeir létu leikinn fljóta og voru ekki að flauta á minniháttar árekstra, á köflum of stóískir að mati sumra leikmanna.

Stemning og umgjörð

Það var ekki mikið undir fyrir bæði lið, einungis spilað upp á stoltið þar sem þau sigla lygnan sjó í efri hlutanum. Alls ekki hægt að kvarta undan umgjörðinni hjá Þrótturum en stemningin litaðist af stöðu liðanna í deildinni og var fremur rólegt á Avis-vellinum í dag.

Viðtöl

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira