Fótbolti

Segir að Xavi hafi látið Barcelona spila eins og Eibar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leiðir Luis Enrique og Xavis hafa oft legið saman.
Leiðir Luis Enrique og Xavis hafa oft legið saman. getty/Siu Wu

Luis Enrique skýtur föstum skotum að Xavi í nýrri heimildamynd. Hann segir að Xavi hafi látið Barcelona spila eins og smálið.

Í heimildamyndinni er fylgst með fyrsta tímabili Luis Enriques við stjórnvölinn hjá Paris Saint-Germain. Í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu mætti liðið Barcelona sem var þá undir stjórn Xavis. Luis Enrique var ekki hrifinn af því hvernig Xavi lét Barcelona spila.

„Barcelona stjórnar ekki leiknum og spila ekki góða vörn. Þeir verjast á mörgum mönnum en vörnin er ekki góð,“ sagði Luis Enrique í heimildamyndinni.

Eftir tap fyrir Barcelona í fyrri leiknum í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar gagnrýndi Luis Enrique liðið enn frekar.

„Það er lygi að Barcelona hafi verið betri. Þeir beittu löngum sendingum. Markvörðurinn [Marc-André ter Stegen] setti met yfir langar sendingar. Ég held að þær hafi verið 24. Þeir spila eins og Eibar,“ sagði Luis Enrique.

Xavi lék undir stjórn Luis Enrique á síðasta tímabili sínu hjá Barcelona, 2014-15. Liðið vann þá þrennuna. Xavi hætti sem stjóri Barcelona í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×