Bragð­dauft á Old Traf­ford

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes átti ekki sinn besta leik og það sama verður sagt um liðsfélaga hans.
Bruno Fernandes átti ekki sinn besta leik og það sama verður sagt um liðsfélaga hans. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester United gerði 1-1 jafntefli við Twente frá Hollandi í 1. umferð Evrópudeildar karla í fótbolta. Leikur kvöldsins var gríðarlega bragðdaufur og heimamenn með bakið upp við vegg eftir slaka byrjun á tímabilinu.

Leikurinn fór vægast sagt hægt af stað og hættulegasta kom þegar varnarmaður Twente reyndi að sparka boltanum í eigið net af stuttu færi en Lars Unnerstall varði vel í marki gestanna. Christian Eriksen braut á endanum ísinn með frábæru skoti þegar boltinn féll fyrir hann inn í teig. 

Heimamenn fagna marki Christian Eriksen.Michael Regan/Getty Images

Þökk sé þrumuskoti Danans var Man United 1-0 yfir í hálfleik en heimamenn höfðu varla farið úr fyrsta gír fram til þessa í leiknum. Eriksen fór hins vegar úr því að vera hetjan í að vera skúrkurinn þegar hann gaf gestunum jöfnunarmarkið á silfurfati.

Eftir mikinn klaufagang í vörn Man Utd endaði Eriksen með boltann en gáði ekki að sér og leyfði Sam Lammers að stela knettinum. Lammers óð inn á teig og lúðraði boltanum á nærstöngina þar sem André Onana var í raun farinn í hitt hornið og staðan orðin 1-1. 

Við þetta lifnaði örlítið yfir sóknarleik heimaliðsins sem hafði ekki verið til staðar fram til þessa. Það var hins vegar of lítið of seint og lokatölur á Old Trafford 1-1. Rauðu djöflarnir hafa aðeins unnið þrjá af fyrstu sjö leikjum sínum á tímabilinu, þar af einn gegn C-deildarliði Barnsley.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira