Fótbolti

Ó­vænt al­veg hættur

Sindri Sverrisson skrifar
Bruno Fernandes og Rapahël Varane fögnuðu enska bikarmeistaratitlinum í vor. Þar fagnaði Varane sínum síðasta titli á glæstum ferli.
Bruno Fernandes og Rapahël Varane fögnuðu enska bikarmeistaratitlinum í vor. Þar fagnaði Varane sínum síðasta titli á glæstum ferli. Getty/Michael Regan

Hinn 31 árs gamli Raphaël Varane hefur fengið sig fullsaddan af meiðslum og spilað sinn síðasta fótboltaleik.

„Ég vil geta verið á hæsta stigi, geta hætt þegar ég er enn sterkur og ekki bara halda í fótboltann. Það krefst mikils hugrekkis að hlusta á hjartað og eigið innsæi,“ sagði Varane í Instagram-færslu, þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína um að leggja skóna á hilluna.

Varane hefur á mögnuðum ferli meðal annars orðið heimsmeistari með Frökkum 2018, og fjórum sinnum unnið Meistaradeild Evrópu og þrisvar spænsku deildina, með Real Madrid. 

Hann varð síðast bikarmeistari með Manchester United í vor en yfirgaf félagið í sumar.

Varane gekk í raðir ítalska félagsins Como, þar sem til stóð að hann myndi leika undir stjórn Cesc Fabregas, en hann meiddist alvarlega eftir tuttugu mínútur í fyrsta leik, í ítalska bikarnum.

Franski miðvörðurinn hefur átt afar erfitt uppdráttar vegna meiðsla, sérstaklega í hné, og eftir að hann meiddist í ágúst var hann ekki skráður í leikmannahópinn sem Como teflir fram í ítölsku A-deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×