Fótbolti

Til í að taka skóna af hillunni fyrir Barcelona

Valur Páll Eiríksson skrifar
Síðustu leikir Wojciech Szczesny voru með Póllandi á EM í sumar. Nú gæti hann snúið aftur á fótboltavöllinn.
Síðustu leikir Wojciech Szczesny voru með Póllandi á EM í sumar. Nú gæti hann snúið aftur á fótboltavöllinn. Getty/Mikolaj Barbanell

Neyðarfundir hafa verið haldnir í Katalóníu í dag vegna alvarlegra meiðsla markvarðar Barcelona, Marc-André ter Stegen. Pólverjinn Wojciech Szczesny er sagður tilbúinn að taka skóna af hillunni til að leika fyrir félagið.

Ter Stegen varð fyrir meiðslum á dögunum og er á leið í aðgerð. Líklegt þykir að hann verði frá í átta til níu mánuði og því ljóst að tímabili Þjóðverjans er lokið.

Börsungar skoða nú að fá markvörð inn í hans stað en ljóst er að sá markvörður þarf að vera án félags, þar sem hinn almenni félagsskiptamarkaður er lokaður.

Þrír eru sagðir koma til greina, Pólverjinn Wojciech Szczesny, Sílebúinn Claudio Bravo, sem lék áður með Barcelona 2014 til 2016, og Kosta Ríkumaðurinn Keylor Navas.

Bravo hætti fótboltaiðkun í sumar en hafði verið á mála hjá Real Betis frá 2020 þar til í sumar.

Samningur Navas við Paris Saint-Germain rann út í sumar en hann var varamarkvörður félagsins á síðustu leiktíð, en lék þó fjóra deildarleiki.

Szczesny var markvörður Juventus á Ítalíu frá 2017 þar til í sumar en hann lagði knattspyrnuskóna á hilluna eftir að samningur hans í Tórínó rann út.

Szczesny er sagður líklegri til að semja við Barcelona og greinir blaðamaðurinn Fabrizio Romano frá því að Barcelona hafi þegar sett sig í samband við umboðsmenn Pólverjans. Hann er sagður opinn fyrir því að hætta við að hætta fyrir eins stórt félag og Barcelona.

Hjá Börsungum er einn annar markvörður í aðalliðshópi félagsins, hinn 25 ára gamli Iñaki Peña, sem er uppalinn hjá félaginu. Hann hefur spilað 13 deildarleiki fyrir Katalóníuliðið, þar af einn á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×