Innlent

Gummi Emil feginn að ekki fór verr eftir mis­heppnaðan sveppatúr

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Gummi Emil segir mikla mildi að ekki fór verr og þakkar lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki.
Gummi Emil segir mikla mildi að ekki fór verr og þakkar lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki. Vísir

Guðmundur Emil Jóhannsson, einkaþjálfari og áhrifavaldur, hefur stigið fram og greint frá því að hann sé maðurinn sem var handtekinn á Suðurlandsvegi í gær, þar sem hann gekk nakinn í veg fyrir bíla.

Í færslu á Instagram segist Guðmundur, oftast þekktur sem Gummi Emil, sjá sér þann kost vænstan að upplýsa almenning um það sem gerðist í gær. Hann hafi ákveðið að fara í svokallaðan „sveppatúr“ ásamt tveimur öðrum.

„Þetta átti að standa frá ca 8:00 um morgun til kl 14:00. Þetta gera menn og konur til að leita innávið og hefur oft á tíðum skilað góðum árangri,“ skrifar Guðmundur. 

Í þessum aðstæðum sé nauðsynlegt að fólk sé undir eftirliti einhverra sem séu alsgáðir og vel með á nótunum.

„Það varð ekki raunin á þessum örlagaríka sunnudegi og það sem gerðist frá því ég tek þessa sveppi og ég ranka við mér á bráðadeild Landspítalans er mér nánast hulið. Það sem ég veit eftirá er að lögreglan bjargar mér af Suðurlandsvegi þar sem ég geng alsnakinn eftir miðjum veginum,“ skrifar Guðmundur. 

Þakklátur lögreglu og heilbrigðisstarfsfólki

Hann segir mikla mildi að ekki fór verr fyrir honum eða öðrum. Hann sé þakklátur löggæslu og starfsfólki bráðamóttöku fyrir hjálp þeirra.

„Það er nokkuð ljóst að ekki verður farið í svona meðferð á næstunni og verður að brýna fyrir fólki að takast ekki á við ferðalag sem þetta nema með fagaðilum sem kunna til verka því í þetta sinn er það alger guðsmildi að ekki fór verr.“

Hann bætir við að auðvitað sé best að anda djúpt að sér góða loftinu hér á Íslandi, og láta þar staðar numið, auk þess sem hann þakkar skilning fólks.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×