Skoðun

Hvað hefur Ís­land gert?

Katla Þorvaldsdóttir skrifar

WHO tilkynnti í vor að 9000 slasaðir eða alvarlega veikir einstaklingar í Gaza séu í bráðri þörf á læknisþjónustu. Evrópuráðið biðlaði til samstöðu Evrópuþjóða með því að taka á móti hluta af þeim sjúklingum. Óskað var eftir að löndin tæki á móti 109 alvarlega slösuðum og veikum börnum frá Gaza sem eru í bráðri þörf á meðferð.

Egyptaland hefur veitt aðstoð og hlúið að þeim 4000 sjúklingum sem hafa verið fluttir yfir landamærin við Rafah, en það er ómögulegt fyrir Egyptaland að bera allan þungann eitt og sér. Önnur miðausturlönd eins og Quatar, Jórdanía og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin hafa einnig tekið á móti sjúklingum i hundraðatali. En það er ekki nóg.

Það er ekki nóg þegar 100,000 einstaklingar hafa slasast. Það er ekki nóg þegar það eru aðeins 10 spítalar eftir, sem geta einungis boðið upp á lágmarksþjónustu. Það er ekki nóg þegar um 500 heilbrigðisstarfsmenn hafa verið drepnir. Það er ekki nóg þegar 70% heimila hafa verið eyðilögð og slasaðir og veikir einstaklingar þurfa að búa við óviðunnandi aðstæður. Það er ekki nóg þótt að stríðið myndi enda í dag því það mun taka marga áratugi að vinda ofan af þeim skaða sem Ísrael hefur valdið.

En hvað hefur Evrópa gert? Lönd eins og Belgía, Slóvakía, Rúmenía, Ítalía, Luxembúrg, Malta, Spánn og nú síðast frændþjóð okkar Noregur hafa tekið á móti eða samþykkt að taka á móti nokkrum palestínskum sjúklingum. Þetta eru ekki margir einstaklingar sem hvert land hefur tekið, nokkrir tugir, en það er þó eitthvað.

Spánn hefur tekið á móti 16 börnum og fjölskyldum þeirra. En hvað höfum við Íslendingar gert? Við tökum ekki á móti veikum palestínskum börnum heldur sendum þau burt. Það stendur til að senda Yazan, 11 ára langveikt barn frá Palestínu, úr landi! Yazan hefur búið á Íslandi í eitt ár, lært íslensku og eignast vini en mikilvægast af öllu hefur hann fengið lífsnauðsynlega meðferð gegn ólæknandi vöðvarýrnunarsjúkdómnum Duchenne.

Þann 16. september var Yazan vakin um miðja nótt og hann fluttur á Keflavíkurflugvöll þar sem senda átti hann till Spánar. Eftir átta klukkustunda frelsissviptingu, var brottvísunni afstýrt. Það kviknaði lítil von um að kanski hefði dómsmálaráðherra skyndilega fundið sína samvisku, áttað sig á að við erum ekki þjóð sem berum út langveikt barn af sjúkrastofnun í skjóli nætur. En nei, því miður var það ekki ástæðan og enn stendur til að senda Yazan og fjölskyldu úr landi. Það er þó ekki of seint að hætta við.

Ísland getur gert svo miklu miklu betur. Við erum ríkt land með góða heilbriðgisþjónustu og ættum því að svara kalli Evópuráðsins, taka á móti veikum palestínskum börnum en ekki rjúfa meðferð þeirra og senda þau burt. Yazan á skilið gott líf og hann á heima hér.

Höfundur er heilbrigðisverkfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×