Enski boltinn

Lokar á föður sinn: Gerði hrylli­lega hluti við fólkið sem ég elska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anel Ahmedhodzic í leik með Bosníu og Hersegóvínu en hann hefur nú spilað sinn síðasta landsleik þrátt fyrir að vera bara 25 ára gamall.
Anel Ahmedhodzic í leik með Bosníu og Hersegóvínu en hann hefur nú spilað sinn síðasta landsleik þrátt fyrir að vera bara 25 ára gamall. Getty/ Jonathan Moscrop

Sheffield United leikmaðurinn Anel Ahmedhodzic er búinn að fá sig fullsaddan af föður sínum og vill ekkert með hann hafa lengur.

Hinn 25 ára gamli Ahmedhodzic skrifaði opið bréf í bosníska fjölmiðilinn N1 þar sem hann lýsir daglegu áreiti, leiðindum og lygum föður síns.

Ahmedhodzic tilkynnti líka að hann væri hættur að spila með bosníska landsliðinu.

Faðirinn, Mirsad Ahmedhodzic, hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum allan feril sonarins og hann sér stöðu mála núna allt öðrum augum. Hann kennir meðal annars konu Anels um að strákurinn sé hættur í landsliðinu.

Segir eiginkonuna beita svartagaldri

„Hann svarar mér ekki lengur og við höfum ekki haft nein samskipti síðan á síðasta ári. Þess vegna gengur allt á afturfótunum hjá honum og ég er vonsvikinn með hann. Hann hlustar meira á eiginkonu sína og tengdamóður en foreldra sína. Ég hef reynt að ná til hans en ég veit ekki hvort hún hefur sett einhver álög á hann,“ skrifaði Mirsad Ahmedhodzic á fésbókina sína.

Það vakti athygli fyrir nokkrum árum þegar faðirinn ásakaði umboðsmann sonarins um að hafa heilaþvegið son sinn. Strákurinn er núna búinn að fá nóg og útskýrir afstöðu sína í bréfinu til N1.

Hún er stórkostleg

„Að segja að konan mín hafi beitt einhverjum svartagaldri á mig er móðgun við mig en enn meira móðgandi við konuna mína því hún er stórkostleg. Það er erfitt að finna konu sem hugsar eins vel um mann og hún hugsar um mig,“ skrifaði Anel Ahmedhodzic.

„Að segja að hún hafi bannað mér að taka þátt í landsleikjum. Þetta er fáránlegt og sýnir bara gáfnafarið hjá þessum lygara,“ skrifaði Anel um föður sinn.

„Við erum komnir á það stig að það er ekki hægt að líta lengur fram hjá þessu. Þetta verður líka í síðasta skiptið sem ég ræði þetta mál. Það eina sem sonur vill er að fá stuðning og stolt frá föður sínum,“ skrifaði Anel.

Lygar, svik og daglegt áreiti

„Við höfum þurft að glíma við stjórnsemi, baktjaldamakk, lygar, svik og næstum því daglegt áreiti. Þetta er maður sem reynir að sýna vald sitt yfir konum en hefur aldrei hugrekki til að standa upp á móti öðrum karlmanni,“ skrifaði Anel.

„Ég er í mjög góðum samskiptum við móður mína. Ég styð hana fjárhagslega og það er algjör lygi þegar hann segir að mér sé sama um foreldra mína. Hann hefur gert hryllilega hluti við fólkið sem ég elska. Það eru svo margar ástæður af hverju ég lokaði á hann,“ skrifaði Anel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×