Fótbolti

„Svo margt í sumar sem sker úr um að við förum niður“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir tók við stjórnartaumunum hjá Keflavík í sumar.
Guðrún Jóna Kristjánsdóttir tók við stjórnartaumunum hjá Keflavík í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Guðrún Jóna Kristjánsdóttir, þjálfari Keflavíkur, segir það gríðarlegt svekkelsi að liðið sé fallið úr Bestu-deild kvenna í knattspyrnu eftir 4-4 jafntefli gegn Stjörnunni í dag.

„Þetta er náttúrulega gríðarlegt svekkelsi, líka bara fyrir hönd stelpnanna sem eru búnar að leggja líf og sál í þetta í allt sumar. Þetta hefur ekki alveg fallið fyrir okkur,“ sagði Guðrún í leikslok.

„Í dag erum við að spila frábærlega á köflum og mikið hrós til stelpnanna fyrir það í þessari erfiðu stöðu. Við höfum kannski ekki alveg haft heppnina með okkur í sumar. Höfum verið að komast í forystu oft og tíðum og svo misst það niður. Það er kannski það sem skilur að í lokin.“

Eins og Guðrún segir var þetta ekki í fyrsta skipti sem Keflavík missir niður forystu í sumar, og ekki í fyrsta skipti sem liðið kemst í 3-0 án þess að vinna leikinn.

„Því miður. Þetta er eitthvað sem við þurfum að læra af og fara yfir. Við þurfum bara að fara yfir sumarið og þetta var ekkert leikurinn sem skar úr um þetta í rauninni. Það er svo margt yfir allt sumarið sem sker úr um það að við förum niður.“

Hún segir að skortur á sjálfstrausti valdi því að liðið missir niður slíkar forystur.

„Þegar hlutirnir fara að ganga illa og þetta er eitthvað sem hefur gerst áður í sumar þá er sjálfstraustið kannski ekki alveg í botni. Ég held að það sé kannski aðallega það sem var. Þetta voru sirka sjötíu mínútur þar sem við spiluðum frábærlega í dag og það er svekkjandi að ná ekki að klára þetta.“

Guðrún tók við stjórnartaumunum hjá Keflavíkurliðinu seint í sumar eftir að Jonathan Glenn var látinn fara. Hún segist þó ekki vita hvað framtíðin ber í skauti sér.

„Ég er að klára þetta verkefni með síðasta leik tímabilsins í næstu viku. Svo er ekkert sem hefur verið rætt varðandi framhaldið,“ sagði Guðrún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×