Erlent

Ljóst hverjir verða á nýjum dönskum peninga­seðlum

Atli Ísleifsson skrifar
Nýir seðlar fara í umferð í Danmörku árið 2028.
Nýir seðlar fara í umferð í Danmörku árið 2028. Getty

Barnabókarithöfundurinn H.C. Andersen og grænlenski landkönnuðurinn Arnarulunnguaq eru meðal þeirra sem munu prýða þá dönsku peningaseðla sem verða settir í umferð í Danmörku og á Grænlandi árið 2028.

Seðlabanki Danmerkur kynnti hvaða einstaklingar og hvaða myndir muni prýða seðlana í morgun.

Í frétt DR segir að á seðlunum verður að finna andlit barnabókahöfundarins H.C. Andersen, stjarnfræðingsins Tycho Brahe, mynd af kjarna jarðar, jarðskjálftafræðingnum Inge Lehmann og hinni grænlensku Arnarulunnguaq sem tók þátt í Thuleleiðangri Knud Rasmussens á árunum 1921 til 1924 sem komst Norðvesturleiðina frá Hudsonflóa til Alaska á hundasleða.

Hafið verður svo meginstef myndanna sem verður að finna á bakhlið seðlanna.

Seðlabankastjórinn Christian Kettel Thomsen fór fyrir nefnd sem tók ákvarðanir um myndavalið og segir hann að leitast hafi verið eftir því að velja myndefni sem sýni það besta við landið og sem tengi saman fortíð og nútíð.

Gert er ráð fyrir að Seðlabanki Danmerkur muni kynna útlit seðlanna árið 2026 en þeir muni koma í stað 50-, 100-, 200- og 500-krónuseðlanna sem hafa verið í umferð frá árinu 2009. Á núverandi seðlum hafa brýr og ýmsir munir verið myndefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×