Fótbolti

„Þurfum að þora að sýna að við eigum að vera betra liðið“

Sindri Sverrisson skrifar
Willum Þór Willumsson kom til Birmingham í sumar og hefur verið að festa sig í sessi í liðinu.
Willum Þór Willumsson kom til Birmingham í sumar og hefur verið að festa sig í sessi í liðinu. Getty/Malcolm Couzens

Willum Þór Willumsson hefur stimplað sig vel inn með Birmingham á Englandi og mætir fullur sjálfstrausts í leikina við Svartfjallaland og Tyrkland í Þjóðadeildinni í fótbolta.

Leikur Íslands og Svartfjallalands er á Laugardalsvelli á morgun klukkan 18:45, og leikurinn við Tyrkland á mánudag, í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.

„Þetta eru tveir flottir leikir og við byrjum á heimavelli, sem er mjög gaman. Það er kominn smátími síðan við spiluðum síðast [á Laugardalsvelli] og það er alltaf gaman að spila hér. Þetta er mjög spennandi,“ segir Willum sem ræddi við fjölmiðla á hóteli landsliðsins í gær.

„Við viljum byrja sterkt, byrja á þremur stigum. Við byrjum heima og eigum flotta möguleika á að byrja þetta vel. Síðan er það Tyrkland úti, sem verður erfiður leikur, en ég tel að við eigum fína möguleika þar líka,“ segir Willum en viðtal Stefáns Árna Pálssonar við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Willum klár í slagin við Svartfellinga

En hvað þarf íslenska liðið að gera gegn Svartfellingum, eina liði riðilsins sem er fyrir neðan Íslands á heimslista FIFA (Ísland er í 71. sæti og Svartfjallaland í 73. sæti)?

„Við þurfum bara að spila okkar leik og þora að sýna að við eigum að vera betra liðið. Þora að spila, og þá held ég að við ættum að vera sigurstranglegri.“

Willum var keyptur til enska C-deildarfélagsins Birmingham í sumar, fyrir fjórar milljónir evra, frá hollenska félaginu Go Ahead Eagles.

„Þetta hefur gengið nokkuð vel. Við erum búnir að vinna þrjá leiki í röð og ég er svona búinn að festa mig aðeins inni í liðinu. Ég kem því á fínu „rönni“ og líður vel. Ég lenti í smámeiðslum rétt fyrir fyrsta leik í deildinni en síðan er ég búinn að ná fjórum leikjum í röð og spilaði tvo níutíu mínútna leiki í síðustu viku, svo ég er í mjög góðu standi.“


Tengdar fréttir

Fékk góð ráð frá pabba: „Alltaf til staðar til að hjálpa okkur“

Andri Lucas Guðjohnsen verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á morgun þegar liðið mætir Svartfjallalandi í fyrsta leik í Þjóðadeildinni í fótbolta. Andri er núna orðinn leikmaður Gent í Belgíu, eftir að hafa þegið ráð frá fyrrverandi landsliðsþjálfarateymi Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×