Erlent

Ben Gurion lokað og ýmis starf­semi lömuð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tugþúsundir komu saman í Tel Aviv í gær til að mótmæla Netanyahu og krefjast vopnahlés.
Tugþúsundir komu saman í Tel Aviv í gær til að mótmæla Netanyahu og krefjast vopnahlés. Getty/Anadolu/Yair Palti

Boðað hefur verið til umfangsmikilla verkfallsaðgerða í Ísrael í dag til að knýja fram vopnahlé við Hamas. Aðgerðir Histadrut, stærsta verkalýðsfélags Ísrael, hófust snemma í morgun og munu hafa víðtæk áhrif.

Skrifstofur fjölda ríkisstofnana og staðaryfirvalda munu líklega ekki opna, né heldur fjöldi skóla og fyrirtækja. Þá verður alþjóðaflugvöllurinn Ben Gurion lokaður frá klukkan 8 í ótilgreindan tíma.

„Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að aðeins inngrip okkar getur vakið þá sem þarf að vekja,“ sagði Arnon Bar-David, formaður Histadrut. „Pólitískir hagsmunir eru að koma í veg fyrir samkomulag og það er óásættanlegt.“

Borgarstjórar Tel Aviv og Givatayim tilkynntu að yfirvöld þar myndu taka þátt í verkfallsaðgerðunum til að krefjast endurheimt þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas og fleiri eru taldir munu fylgja í þeirra fótspor.

Mikil mótmæli brutust út um helgina eftir að lík sex gísla fundust á Gasa. Talið er að um hundrað séu enn í haldi en að einhver fjöldi þeirra sé þegar látinn. 

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur sætt sívaxandi þrýstingi um að ganga af alvöru til viðræðna við Hamas um vopnahlé en er pólitískt séð á milli steins og sleggju þar sem vopnhlé myndi líklega sprengja ríkisstjórnina.

Hefur Netanyahu verið sakaður um að taka eigin pólitísku hagsmuni fram yfir hagsmuni gíslanna en stjórnvöld hafa einnig verið mjög áfram um að freista þess að tortíma Hamas og forystu samtakanna vegna árásanna 7. október.

Þá verður afar erfitt fyrir yfirvöld að ganga frá hálfkláruðu verk, ekki síst nú þegar Yahya Sinwar hefur tekið við pólitískri forystu Hamas, þar sem hann skipulagði árásirnar 7. október og er efstur á hefndarlista Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×