Fótbolti

Hákon Arnar tekinn af velli í hálf­­­leik en Albert ekki í hóp

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hákon Arnar í baráttu við Warren Zaire Emery í liði PSG í kvöld.
Hákon Arnar í baráttu við Warren Zaire Emery í liði PSG í kvöld. Vísir/Getty

Hákon Arnar Haraldsson var tekinn af velli í hálfleik hjá Lille í dag þegar liðið beið lægri hlut gegn meisturum PSG í kvöld.

Hákon Arnar var í byrjunliði Lille sem lék á heimavelli gegn stórliði PSG. Hákon Arnar hefur byrjað tímabilið vel hjá Lille sem tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku.

Í dag voru það hins vegar Frakklandsmeistararnir sem höfðu betur. PSG komst í 2-0 í fyrri hálfleik með mörgum frá Vitinha og Bradley Barcola. Að fyrri hálfleiknum loknum var Hákon Arnar síðan tekinn af velli ásamt Angel Gomes sem sneri aftur í kvöld eftir að hafa lent í óhugnalegu atviki í fyrsta leik Lille á tímabilinu.

Lille tókst að minnka muninn á 78. mínútu með marki frá Edon Zhegrova en lengra komust heimamenn ekki og Randal Kolo Muani innsiglaði 3-1 sigur PSG með marki í uppbótartíma. Lille er í 6. sæti deildarinnar eftir tapið en PSG á toppnum með fullt hús stiga.

Þá var leikið á Ítalíu í kvöld þar sem stórliðin Juventus og Roma gerðu markalaust jafntefli. Fyrr í dag gerði Fiorentina 2-2 jafntefli gegn Monza á heimavelli en Albert Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Fiorentina vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×