Innlent

Engin gosmóða í dag

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gosmóða ætti ekki að trufla íbúa á suðvesturhorninu í dag.
Gosmóða ætti ekki að trufla íbúa á suðvesturhorninu í dag. Vísir/Vilhelm

Litlar breytingar hafa orðið á gosstöðvunum í nótt og ekki má búast við gosmóðu yfir suðvesturhorninu í dag.

„Það hefur verið góður gangur og strókavirkni í þessum tveimur gýgum sem eru virkir. Þetta er auðvitað bara sama svæði og hefur verið, í norðausturenda kvikugangsins,“ segir Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Erfitt sé að átta sig á hvort hraunið hafi breitt mikið úr sér.

„Maður sér ekki nógu vel á þessum vefmyndavélum, þær eru ekki nógu hátt uppi til að maður sjái hvernig hraunbreiðan er að dreifa úr sér. Líklega er hún hægt og rólega að færa sig. Það voru teknar myndir í gærkvöldi og þá voru ekki miklar hreyfingar. Líklega verðum við að bíða eftir gervitunglamynd eða að einvher fljúgi aftur dróna yfir,“ segir Bjarki. 

Síðustu daga hefur gosmóðu orðið vart á suðvesturhorni landsins. Bjarki segir ekkert slíkt núna. 

„Það er líka norðanátt þannig að það fýkur allt á haf út. Það á ekki að trufla mikið hér en það snýst í suðvestanátt eða vestanátt síðdegis eða í kvöld og þá gæti komið eitthvað yfir Suðurlandið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×