Innlent

Katrín tekur sæti í há­skóla­ráði HÍ

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir lét af störfum sem forsætisráðherra þegar hún bauð sig fram til forseta í vor.
Katrín Jakobsdóttir lét af störfum sem forsætisráðherra þegar hún bauð sig fram til forseta í vor. Vísir/Vilhelm

Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra hefur tekið sæti í háskólaráði Háskóla Íalands til næstu tveggja ára. Meðal verkefna háskólaráðs er að marka heildarstefnu í málefnum háskólans og setja reglur um starfsemi háskólans á grundvelli laga. Þá fer háskólaráð með úrskurðarvald í málefnum skólans.

Þetta kemur fram í fundargerð háskólaráðs frá 22. ágúst síðastliðnum.

Samkvæmt lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 tilnefnir háskólaráð, skipað átta fulltrúum, sameiginlega þrjá fulltrúa til viðbótar, auk sameiginlegs varamanns þeirra, til þess að ráðið teljist fullskipað.

Rektor bar upp tillögu um að viðbótarfulltrúar ráðsins yrðu Arnar Þór Másson stjórnarmaður og ráðgjafi, Elísabet Siemsen fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, og Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra.

Tillagan var samþykkt einróma.

Fulltrúar í háskólaráði að rektor undanskildum fá greidda fasta mánaðarlega þóknun fyrir störf sín í háskólaráði og á þess vegum. Þóknunin nemur 15 klst. á mánuði á háskólaárinu, frá 1. júlí til 30. júní, og miðast greiðslan við þóknanataxta Háskóla Íslands.

Katrín hefur áður setið í háskólaráði, þegar hún var í Stúdentaráði á árunum 1998 til 2000 sem fulltrúi Röskvu, félagshyggjuhreyfingar stúdenta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×