Innlent

Færri of­beldis­brot á skemmti­stöðum sem taka þátt í verk­efninu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Undirritun samstarfs um öruggara skemmtanalífs.
Undirritun samstarfs um öruggara skemmtanalífs. Mynd/Reykjavíkurborg

Samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði var undirritað í dag. Þetta er í fimmta sinn sem verkefnið er undirritað. Markmiðið samningsins er að skemmtistaðir í Reykjavík séu ofbeldislausir og öruggir, fyrir alla gesti og starfsfólk. Samkomulagið var fyrst undirritað árið 2016 og þá áttu 17 skemmtistaðir aðild að samkomulaginu en í dag eru þeir þrjátíu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru vísbendingar um að ofbeldisbrotum sem eru tilkynnt inni á skemmtistöðum, sem eru aðilar að samkomulaginu, hafi fækkað. Með teyminu hafa boðleiðir orðið styttri, samskipti hafa aukist og betri skilningur er á milli allra aðila samkomulagins.

Teymi frá Reykjavíkurborg, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fer árlega í heimsókn á staðina til að kanna hvort þeir mæti þeim skilyrðum sem eru sett fram í samkomulaginu um örugga skemmtistaði og starfsfólk fær upplýsingar.

Límmiðar með upplýsingum um að skemmtistaðurinn taki þátt í verkefninu eru afhentir og þeir límdir upp á sýnilegum stöðum fyrir gesti staðarins. Myndavélar tryggja öryggi gesta og eru settar upp við salerni og við inngang skemmtistaða.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að með samkomulaginu eigi að tryggja samskipti og samstarf á milli aðila samkomulagsins, en það eru Reykjavíkurborg, Neyðarlínan 112, Samtök aðila í ferðaþjónustu, Samtök reykvískra skemmtistaða, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkislögreglustjóra og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins.

Með samkomulaginu er stefnt að því að fyrirbyggja allt mögulegt ofbeldi á skemmtistöðum. Ofbeldi í hvaða mynd sem er, er ekki liðið, þar með talið kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni, vændi og mansal, sem og ofbeldi sem byggist til dæmis á rasisma og öðrum fordómum eða hatri, svo sem í garð innflytjenda eða hinsegin fólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×