Fótbolti

Sjáðu 4. deildar hetjur HK gegn KR og markasúpu Víkinga

Sindri Sverrisson skrifar
Víkingar fagna einu af fimm mörkum sínum gegn Santa Coloma í gær.
Víkingar fagna einu af fimm mörkum sínum gegn Santa Coloma í gær. vísir/Diego

Það voru tveir bráðskemmtilegir leikir á dagskrá á Stöð 2 Sport í gærkvöld og nóg af mörkum sem nú má sjá á Vísi.

Víkingar eru komnir með annan fótinn, eða nánast báða, í aðalkeppni Sambandsdeildar Evrópu eftir 5-0 risasigur gegn Santa Coloma frá Andorra. Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri hjá Víkingum sem klúðruðu til að mynda tveimur vítaspyrnum.

Nikolaj Hansen og Valdimar Þór Ingimundarson skoruðu tvö mörk hvor og Gunnar Vatnhamar eitt, en Víkingar voru manni fleiri allan seinni hálfleikinn eftir að Christian García fékk rautt spjald. Seinni leikur liðanna er í Andorra eftir viku.

Klippa: Mörkin úr leik Víkings og Santa Coloma

Í Kórnum fór svo fram einhver umtalaðasti leikur ársins þegar HK og KR mættust loks eftir að leik þeirra var frestað vegna brotins marks.

KR-ingar voru í toppmálum í hálfleik, 2-0 yfir eftir mörk Benóný Breka Andréssyni og Aroni Sigurðarsyni. En í seinni hálfleik skoraði Eiður Gauti Sæbjörnsson tvennu og Atli Þór Jónasson svo sigurmark HK-inga, rétt eftir að mark var dæmt af KR-ingum fyrir brot.

Klippa: Mörkin úr leik HK og KR

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, benti á þá skemmtilegu staðreynd í viðtali við Fótbolta.net að markaskorarar HK í gær, þeir Eiður Gauti og Atli Þór, hefðu mæst í leik í 4. deild (á milli Ýmis og Hamars) fyrir tveimur árum, sem hann fylgdist með úr stúkunni.


Tengdar fréttir

„Ég elska bara að skora“

Nikolaj Hansen skoraði fyrsta og síðasta mark Víkings er liðið vann afar sannfærandi 5-0 sigur gegn Santa Coloma í fyrri leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.

„Snýst um að hleypa þessu ekki í neina vitleysu“

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, segir það vera skrýtna tilfinningu að hafa unnið 5-0 stórsigur gegn Santa Coloma í forkeppni Sambandsdeildarinnar, en hugsa samt eftir leik að sigurinn hafi getað verið mun stærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×