Innlent

Hafa á­hyggjur af kalda­vatns­lögn

Eiður Þór Árnason skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Vísir/Arnar

Mælingar benda til að hraunflæði eldgossins sem hófst í Sundhnúksgígaröðinni í kvöld sé um 1.200 til 1.500 rúmmetrar á sekúndu. Gert er ráð fyrir því að hraun nái fljótlega að Grindavíkurvegi.

Niðurstöður úr flugi vísindamanna yfir gosið sýna að mesta hraunflæðið er norðan við Stóra-Skógfell og síðan á milli Sýlingarfells og Stóra-Skógfells.

„Ég held að þetta sé bara svipaður hraði og við höfum verið að sjá í byrjunarfasa á þessum gosum. Þetta ætti svosem ekkert að koma okkur á óvart,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnarsviðs hjá ríkislögreglustjóra.

Áhyggjur séu af kaldavatnslögn sem liggi meðfram Grindavíkurvegi að Svartsengi. Lögnin hafi áður þolað það að fara undir hraun en viðbragðsáætlun sé til staðar ef það þurfi að gera við lögnina. Minni áhyggjur séu af heitavatnslögn og raflögnum sem séu betur varðar.

Vel gengið að rýma

Víðir segir að vel hafi gengið rýma Grindavík í kvöld og ekki mjög margir verið í bænum. Mesta virknin í gosinu sé nú norðar en áður og kannski líkast því sem var í desembergosinu árið 2023.

Hann bætir við að hraun renni nú bæði norðan og sunnan við Stóra-Skógfell en til samanburðar hafi megnið af hrauninu í síðasta gosi runnið suður að Grindavík og sunnan við Stóra-Skógfell. Ekkert hraun renni nú suður í áttina að Grindavík.

Unnið er að gerð hraunflæðilíkans sem getur spáð fyrir um rennsli hrauns næstu tólf til sextán klukkustundirnar. Í kjölfarið af því verður metið hvort ástæða sé til að gera breytingar á fyrirliggjandi vörnum og áætlunum, að sögn Víðis. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×