Skoðun

Eins og barinn hundur

Einar Helgason skrifar

Á æskuárum mínum dvaldi ég löngum í sveit hjá afa mínum sem þar var bóndi. Helsti leikfélagi minn og vinur á bænum var hundurinn sem fylgdi mér um hvert fótmál. Ég man að mér þótti afskaplega vænt um hann og fagnaði honum á hverjum morgni þegar ég vaknaði. Reyndar þótti mér vænt um alla hunda og leitaðist gjarnan eftir félagsskap þeirra hvar sem ég sá þá. Og mig minnir jafnvel að hundarnir á næstu bæjum í kring um okkur hafi verið góðir félagar mínir. Þó var þarna á einum bænum sem var undantekning frá þessu því þar bjó karlfjandi sem var orðlagður ruddi bæði við sitt heimilisfólk og dýr. Hann átti stóran svartann hund sem fylgdi honum eftir um hvert fótmál sem kannski var furðulegt því það var ekki hægt að segja að hann væri góður við hann. Hann átti það til að sparka í hann ef honum mislíkaði eitthvað og jafnvel berja hann með svipu eins og ég varð vitni að einu sinni. Ég var oft búin að reyna nálgast þennan hund til þess að vingast við hann en hann sýndi bara tennurnar og urraði. En það furðulega var að þegar karlinn kom út úr bæ eftir að hafa drukkið kaffi og lagði af stað heim til sín fylgdi hundurinn fast á hæla hans. Jafnvel eftir að karlinn hafði sparkað í hann vegna þess að hann var fyrir honum þegar hann var að troða sér í stígvélin.

Það má heita furðulegt að mér dettur oft í hug hundurinn svarti þegar maður verðu vitni af því hvernig Íslensk þjóð lætur fara með sig. Hér látum við okkur lynda að lifa í einhverju stórbrengluðu umhverfi í peningamálum sem enginn af siðmenntuðum þjóðum sem við berum okkur saman við myndi sætta sig við. Við jafnvel teljum það eðlilegt að búa við vaxtastig sem er í gangi meðal þjóða sem eiga í blóðugu stríði sín á milli eins og Ukraína og Rússland. Og það furðulega er að það blasir við öllum sem vilja sjá það að auðsöflin hér á landi moka til sín peningum þegar vextir eru í hæstu hæðum og alþýðan er að kikna. Og en furðulegra er að það er hægt að telja stórum hluta þjóðarinnar trú um að við verðum að búa við þetta vegna þess að við erum svo sérstök. Samt blasir það við öllum að það væri hægt að snúa þessu við ef það væri einhver skynsemisglóra hjá þessari þjóð. Nei frekar veljum við að vera eins og hundurinn svarti sem skríður á kviðnum inn í kjörklefana í kosningum og kýs yfir sig aftur og aftur þessa tvo flokka sem eru búnir að skapa þetta þjóðfélag sem við búum við í dag. Getur verið að fólk sem velur þessi öfl yfir sig aftur og aftur sjái ekki hvernig búið er að sníða þetta þjóðfélag eftir þörfum peningaaflana í þessu landi.

Það sorglega við þetta allt saman er að við eigum baráttujaxla hérna meðal okkar sem brenna fyrir það að breyta þessu ástandi en vilja ekki fara þá einu leið sem er fær. Þá er ég að tala um fólk eins og formenn verkalýðsfélaga og stjórnmálafólk á þingi sem vilja berjast fyrir réttlátu þjóðfélagi. Nú veit ég að hinn skeleggi verkalýðsforingi á Akranesi hefur haft orð á því að við verðum að kasta þessari Íslensku krónu út í hafsauga og taka upp aðra mynt. Vissulega er ég sammála honum um krónuna en því miður virðist svo vera að hann sé ekki sammála mér um að við verðum að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Ég sjálfur er sannfærður um að það sé eina raunhæfa leiðin en hann virðist ekki hafa þær hugmyndir heldur taka heldur upp þá mynt sem okkur hentar. Ég reikna með að verkalýðsforinginn ofan af Akranesi geti farið með þessa þulu til eilífðarnóns án þess að nokkuð breytist. En svo virðist vera að hann hafi verið forritaður gegn ESB og þar við situr. Eins er hægt að nefna baráttukonurnar tvær hjá Flokki Fólksins þær Ingu Sæland og Ásthildi Lóu Þórsdóttir sem ég er ekki í vafa um að séu allar að vilja gerðar að bæta hag þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Þar hefur forritunin gegn ESB tekist nokkuð vel og svínvirkar. Enda þarf ekki annað en lesa greinina sem þær skrifa hér á Vísi þar sem þær gera því góð skil hvernig alþýðan engist undan Íslenska fjármálakerfinu en benda ekki á neina lausn. Ég býst við að þessar tvær sómakonur geti hamast í sömu sporum þar til veröldin líður undir lok á meðan ekkert breytist og Tommi hrýtur við hliðina á þeim.

Síðan get ég ekki sleppt því að minnast á það hlægilegasta eða kannski það grátlegasta í þessu öllu saman þegar á þriðja hundruð stærstu íslensku fyrirtækin hafa skipt yfir í aðra mynt. Og kannski eru það þeir aðilar sem best standa í samfélaginu og græða á tá og fingri þegar ástandið er sem verst hjá venjulegu fólki. Ég væri ekki hissa þótt þetta lið hafi slegið upp partí núna eftir að seðlabankastjóri ákvað að halda stýrivöxtum áfram á sama stað til þess að fagna áframhaldandi gróða. Nú geri ég ráð fyrir að þeir sem lesi þennan pistil finnist ég kannski orðljótur og í einhverju skapvonskukasti. Ég viðurkenni að það er alveg laukrétt og svo ég endurtaki það sem ég hef sagt áður. Hvernig í ósköpunum getur Íslensk alþýða sætt sig við þetta klikkaða peningaumhverfi ár eftir ár. Getur verið að hatrið og andúðin á ESB sem ég tel vera einu raunhæfu leiðina sé svo djúpstæð að stór hluti Íslendinga vilji frekar láta níðast á sér. Og svo er það furðulegasta að Íslenska þjóðin sem er að stærstum hluta komnir inn í sambandið og flestir eru sáttir við. Og þar vilja þeir vera frekar heldur en að ganga alla leið þar sem almenningur getur fengið mestan ágóðann. Það er ekki skrítið þótt mér detti stundum í hug að stór hluti af Íslendingum vilji láta níðast á sér. Og endilega ef þið viljið halda því áfram þá er aðferðin sú að koma skríðandi eins og svarti hundurinn forðum inn í kjörklefann og kjósa sömu kvalaranna yfir sig aftur og aftur. Verði ykkur að góðu.

Höfundur er fyrrverandi bílstjóri




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×