Upp­gjörið: Víkingur - Santa Coloma 5-0 | Stór­sigur Víkinga þrátt fyrir tvö vítaklikk

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Nikolaj Hansen fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Nikolaj Hansen fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Vísir/Diego

Þrátt fyrir að klúðra tveimur vítaspyrnum vann Víkingur stórsigur á Santa Coloma frá Andorra, 5-0, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

Víkingar voru sterkari frá upphafsflauti leiksins og stýrðu spilinu að mestu leyti. Liðinu tókst að skapa sér nokkur sæmileg færi á fyrstu mínútunum, en vörn gestanna var þétt og gaf fá færi á sér.

Það breyttist þó heldur betur eftir rétt tæplega hálftíma leik þegar Ari Sigurpálsson kom boltanum inn á teig. Valdimar Þór missti af honum, en Nikolaj Hansen mætti á ferðinni á fjærstöngina og skilaði boltanum rétta leið, 1-0.

Nikolaj Hansen fagnar.Vísir/Diego

Yfirburðir Víkinga minnkuðu ekki við markið og stuttu fyrir hálfleikshléið fékk liðið gullið tækifæri til að tvöfalda forystuna. Fyrirliði gestanna, Christian Garcia, braut þá á áðurnefndum Nikolaj Hansen innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Króatíski dómarinn var svo sendur í skjáinn og eftir smá umhugsun ákvað hann að senda Garcia í snemmbúna sturtu með beint rautt spjald.

Aron Elís Þrándarson fór á punktinn, en Alex Ruiz sá við honum í marki Santa Coloma og staðan í hálfleik því 1-0, Víkingum í vil.

Dómari leiksins teygir sig eftir rauða spjaldinu.Vísir/Diego

Gestirnir gerðu svo tvöfalda skiptingu í hálfleik og óhætt er að segja að í það minnsta annar varamaðurinn hafi sett svip sinn á leikinn, þó það hafi kannski ekki verið af hinu góða fyrir Santa Coloma.

Á 51. mínútu komu Víkingar boltanum inn á teig og reyndu skot að marki sem var varið. Karl Friðleifur tók frákastið og ætlaði að taka boltann með sér, en þá tók varamaðurinn Jesus Rubio upp á því að handleika knöttinn innan teigs. Valdimar Þór fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Þriðja vítaspyrna leiksins leit svo dagsins ljós eftir rétt rúmlega klukkutíma leik þegar Youssef El Ghazoui handlék knöttinn innan vítateigs eftir hornspyrnu Víkinga. Valdimar Þór steig á punktinn í annað sinn, en í þetta skipti þrumaði hann hátt yfir markið.

Víkingar náðu þó að bæta þriðja markinu við þegar hornspyrna Karls Friðleifs á 66. mínútu skoppaði í gegnum allan pakkann þar sem Gunnar Vatnhamar mætti á fjærstöngina og skilaði boltanum rétta leið. Fjórða markið skoraði svo Valdimar Þór tíu mínútum síðar eftir fyrirgjöf Arons Elísar og bætti þar með upp fyrir vítaklúðrið.

Gunnar Vatnhamar skilar boltanum í netið.Vísir/Diego

Nikolaj Hansen rak svo síðasta naglann í kistu gestanna þegar hann skoraði með síðustu spyrnu leiksins og niðurstaðan varð því afar öruggur 5-0 sigur Víkinga sem eru þar með komnir með rúmlega annan fótinn inn í Sambandsdeildina.

Atvik leiksins

Fyrra víti Víkinga var klárlega vendipunktur í leiknum, þrátt fyrir að Aron Elís Þrándarson hafi misnotað spyrnuna. Nikolaj Hansen gerði virkilega vel í að koma sér í góða stöðu og fiskaði spyrnuna og í kjölfarið var fyrirliðinn Christian Garcia sendur af velli eftir langa skoðun myndbandsdómara, og að lokum dómarans sjálfs í VAR-skjánum góða.

Aron Elís á punktinum.Vísir/Diego

Stjörnur og skúrkar

Áðurnefndur Christian Garcia hlýtur að vera skúrkur eftir þennan leik. Brýtur klaufalega af sér innan vítateigs og fær að líta beint rautt spjald rétt fyrir hálfleikshlé. Slapp vissulega með skrekkinn þar sem Aron Elís misnotaði spyrnuna, en kom sínu liði í afar vonda stöðu.

Stjörnurnar koma hins vegar úr liði Víkings. Valdimar Þór Ingimundarson og Nikolaj Hansen skoruðu tvö mörk hvor, og þrátt fyrir að hafa brennt af einni vítaspyrnu átti Valdimar Þór hörkuleik og var valinn maður leiksins á Víkingsvellinum.

Dómarinn

Króatíski dómarinn Ante Culina var vissulega að einhverju leyti í aðalhlutverki í kvöld. Benti þrisvar á punktinn og veifaði einu rauðu spjaldi, en var líklega bara með allt á hreinu. Fínasta frammistaða hjá króatíska teyminu.

Stemning og umgjörð

Þrátt fyrir íslenskt haustveður létu stuðningsmenn Víkings sig ekki vanta á völlinn. Uppsellt var á leikinn og mikið sungið og trallað í stúkunni, enda stórsigur í síðasta heimaleik liðsins áður en deildarkeppni Sambandsdeildarinnar tekur við.

Víkingar skemmtu sér konunglega í stúkunni.Vísir/Diego

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira