Innlent

Vilja ekki tæma klósettin við Nykur­hyls­foss

Bjarki Sigurðsson skrifar
Nykurhylsfoss er neðsti fossinn í Fossá sem rennur til sjávar í Berufirði.
Nykurhylsfoss er neðsti fossinn í Fossá sem rennur til sjávar í Berufirði. Vísir/Friðrik Þór

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur hafnað beiðni landeigenda jarðarinnar Lindarbrekku í Berufirði um að sveitarfélagið styrki innviði fyrir ferðamenn á plani við Nykurhylsfoss. 

Nykurhylsfoss er einnig þekktur sem Fossárfoss eða Sveinsstekksfoss og er neðsti fossinn í Fossá. Hann er fimmtán metra hár og þykir afar fallegur. 

Nafnið Nykurhylsfoss kemur úr þjóðsögu um að þar hafi vatnaveran nykur búið og reyndu menn að losna við hann í mörg ár. Nykrar birtust oft í gervi hests eða ungs manns og reyndu að draga ungar stúlkur og börn í vatnið til sín. Það tókst losna við hann þegar skírnarvatni var hellt í ána. 

Landeigendur óskuðu eftir því að sveitarfélagið myndi aðstoða við að tæma kamra sem landeigendurnir höfðu sett upp á svæðinu og svo koma upp sorplosunaraðstöðu á svæðinu. 

Beiðninni var hafnað samhljóða af ráðinu og bar það fyrir sig að sveitarfélagið sjái almennt ekki um rekstur salerna í dreifbýli eða sorphirðu á ferðamannastöðum. 

Fjallað var um salernisskort á svæðinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 árið 2016. Þar kom fram að erfitt væri að fara í berjamó í sumum brekkum á svæðinu þar sem oft leyndist klósettpappír inn á milli trjánna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×