Handbolti

Ungu strákarnir okkar grát­lega ná­lægt bronsi

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir í U18-landsliðinu geta farið stoltir heim frá Svartfjallalandi en misstu þó af verðlaunum.
Strákarnir í U18-landsliðinu geta farið stoltir heim frá Svartfjallalandi en misstu þó af verðlaunum. HSÍ

Íslenska U18-landsliðið í handbolta karla missti óhemju naumlega af verðlaunum á Evrópumótinu sem lýkur í Svartfjallalandi í dag.

Eftir tapið gegn Dönum í undanúrslitum þá mættu íslensku strákarnir liði Ungverjalands í slag um bronsverðlaunin í dag.

Ungverjar hafa oft reynst Íslendingum erfiðir á handboltavellinum og þannig var það í dag því Ungverjaland vann eftir framlengdan leik, 36-34.

Ísland var tveimur mörkum yfir, 32-30, en Ungverjaland skoraði tvö síðustu mörk venjulegs leiktíma og náði að tryggja sér framlengingu. Ísland skoraði fyrsta mark framlengingarinnar og staðan var jöfn í hálfleik hennar, 33-33, en Ungverjar höfðu meiri orku í lokin og tryggðu sér bronsið.

Það gerði íslenska liðinu erfitt fyrir að missa lykilmanninn Dag Árna Heimisson af velli með beint rautt spjald á 42. mínútu.

Íslensku strákarnir geta þó farið stoltir heim eftir mjög gott mót. Jens Bragi Bergþórsson og Ágúst Guðmundsson voru þeirra markahæstir í dag með 6 mörk hvor, og Garðar Ingi Sindrason og Harri Haraldsson skoruðu 5 mörk hvor. Jens Sigurðarson varði 9 skot í markinu.

Svíþjóð og Danmörk leika til úrslita á mótinu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×