Fótbolti

„Blikaleikir eru aldrei búnir fyrr en það er búið að flauta af“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pétur Pétursson á hliðarlínunni í bikarúrslitaleik kvöldsins.
Pétur Pétursson á hliðarlínunni í bikarúrslitaleik kvöldsins. Vísir/Anton Brink

„Þetta er alltaf jafn sætt. Síðasti titillinn er alltaf bestur,“ sagði Pétur Pétursson, þjálfari Vals, eftir að liðið tryggði sér bikarmeistaratitil kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Leikur kvöldsins fór hægt af stað og í raun sköpuðu liðin engin færi fyrsta hálftímann. Eftir það vöknuðu leikmenn þó til lífsins og fengu bæði nóg af færum til að brjóta ísinn.

„Mér fannst þetta bara góður leikur hjá tveimur góðum liðum. Mér fannst við aðeins ofan á í þessum leik og sem betur fer þá tókst okkur að vinna.“

Það voru þó Valskonur sem urðu fyrri til að brjóta ísinn þegar Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir kom boltanum yfir línuna, en stuttu áður hafði Valsliðið bjargað á línu á hinum enda vallarins. Pétur segist þó alltaf hafa verið rólegur. 

„Það er best að gera þetta svona. Ég var svosem ekki stressaður að Blikarnir myndu skora. Ég hafði það ekki á tilfinningunni. Ég er gamall markaskorari ogmér fannst við hafa yfirhöndina í seinni hálfleik og ég hafði það á tilfinningunni að við myndum vinna þennan leik.“

Pétur segir þó að þrátt fyrir að Jasmín Erla Ingadóttir hafi tvöfaldað forystu Vals þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka þá hafi leikurinn alls ekki verið búinn á þeim tímapunkti.

„Þetta var náttúrulega aldrei búið þá. Blikaleikir eru aldrei búnir fyrr en það er búið að flauta af. Þær ná einu marki og það getur allt skeð í þessu.“

Að lokum segir hann dagsformið klárlega skipta máli þegar þessi tvö lið mætast, enda höfðu liðin mæst 156 sinnum fyrir leik kvöldsins og í þeim leikjum voru bæði lið með 67 sigra og 22 hafði orðið jafntefli.

„Þetta er klárlega það. Í þessum leikjum er þetta ekki spurning um hvað þú heitir, heldur er þetta bara spurning um hvernig þú stendur þig úti á vellinum,“ sagði sigurreifur Pétur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×