Erlent

Apabóla greinist í Sví­þjóð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir ekki ástæðu til að grípa til aðgerða hér á landi að svo stöddu.
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir ekki ástæðu til að grípa til aðgerða hér á landi að svo stöddu. Vísir/Arnar

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi vegna útbreiðslu apabólu. Sjúkdómurinn hefur breiðst hratt út í Afriku og fyrsta tilfellið þar fyrir utan greindist í dag í Svíþjóð.

Faraldur apabólu gekk einnig yfir fyrir um tveimur árum og barst þá meðal annars til Íslands. Nú er um annað afbrigði að ræða.

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir embættið fylgjast vel með þróuninni en ekki verði gripið til ráðstafana að svo stöddu. Fólki í áhætttuhópum bauðst bólusetning gegn sjúkdómnum fyrir tveimur árum. Enn séu til skammtar af því.

Guðrún var til viðtals um málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar sagði hún þetta tilfelli apabólu vel geta borist til Íslands en að hún óttist ekki faraldur.

Apabóla smitast helst í gegnum náin kynni og lýsir sér í fyrstu með flensueinkennum en síðan slæmum bólum um allan líkamann. Um 450 hafa látist af völdum sjúkdómsins í Kongó á þessu ári þar sem útbreiðslan hefur verið hvað mest.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×