Erlent

Búið að slökkva eldinn í Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin er með fulltrúa á vettvangi og fylgist með með þróun mála.
Alþjóðakjarnorkumálastofnunin er með fulltrúa á vettvangi og fylgist með með þróun mála. epa/Sergei Ilnitsky

Rússneska ríkisfréttastofan Tass hefur greint frá því að búið sé að slökkva eldinn sem kviknaði í Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu í Úkraínu í gær. Kæliturn er sagður hafa skemmst í eldinum en hann var óvirkur fyrir.

Fregnir herma að eldurinn hafi ekki haft áhrif á starfsemi kjarnorkuversins eða geislun en Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að svo lengi sem „rússneskir hryðjuverkamenn“ færu með stjórn versins gæti ástandið þar ekki orðið eðlilegt.

Rússar tóku verið yfir skömmu eftir að þeir réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022.

Selenskí sagði í daglegu ávarpi sínu í nótt að Rússar hefðu gert nærri 2.000 árásir á Sumy-hérað frá Kursk yfir sumarið, sem kallaði á „sanngjörn“ viðbrögð. Fregnir herma að þúsundir úkraínskra hermanna hafi sótt yfir landamærin inn í Kursk á síðustu dögum.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í morgun að komið hefði verið í veg fyrir árásir sveita frá Úkraínu í þremur bæjum; Tolpino, Zhuravli og Obshchiy Kolodez, sem allir liggja í um 24 til 28 km fjarlægð frá landamærunum.

Þrjátíu og fimm ára gamall maður og fjögurra ára sonur hans létust í árás Rússa á Kænugarð um helgina. Selenskí sagði eldflaugina sem varð þeim að bana hafa verið framleidda í Norður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×