Erlent

Sex­tíu og einn látinn eftir flug­slysið í Brasilíu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mynd af vettvangi í nótt.
Mynd af vettvangi í nótt. AP

Allir sem voru um borð í flugvélinni sem brotlenti í Vinhedo í Sau Paulo héraði í Brasilíu eru látnir. Mildi þykir að enginn hafi slasast sem var á jörðinni, en vélin brotlenti í íbúabyggð þar sem aðeins eitt hús varð fyrir skemmdum.

Flugvélin var á leið frá Cascavel til flugvallarins í Sau Paulo þegar hún hrapaði skyndilega niður fyrir allra augum. Fimmtíu og sjö farþegar voru um borð og fjórir starfsmenn. Á myndbandi má sjá þegar vélin hringsnerist á hraðri leið til jarðar.

Rannsaka tildrögin

Brasilísk yfirvöld rannsaka nú tildrög slyssins. Flugmálastofnun Brasilíu hefur gefið það út að vélin, sem var byggð árið 2010, hafi verið í góðu standi með alla skráningu og réttindi í lagi. Sömuleiðis hafi áhöfnin verið með öll réttindi í lagi.

Framleiðandi vélarinnar, fransk-ítalska fyrirtækið ATR, mun aðstoða við rannsókn málsins.

Slysið er banvænasta flugslysis heims síðan í janúar 2023, þegar 72 létust í hörmulegu flugslysi í Nepal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×