Erlent

Dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að pynta og mis­nota hunda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Adam Britton er heimsfrægður krókódílasérfræðingur og vann meðal annars fyrir BBC og National Geographic.
Adam Britton er heimsfrægður krókódílasérfræðingur og vann meðal annars fyrir BBC og National Geographic.

Krókódílasérfræðingurinn Adam Britton hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi í Ástralíu eftir að hafa játað að hafa pyntað, nauðgað og drepið um fjörtíu hunda.

Brotin tók Britton upp í „pyntingarklefa“ á landareign sinni í Darwin og deildi með öðrum á internetinu.

Dómarinn í málinu sagði brotin ofar mannlegum skilningi en við aðalmeðferð málsins gaf hann út viðvörun til viðstaddra um að yfirgefa réttarsalinn ef þeir teldu sig ekki höndla þann viðbjóð sem fjallað yrði um.

Britton játaði í spjalli á netinu að hann hefði byrjað að misnota hesta þegar hann var aðeins 13 ára gamall. Þá hefði hann verið grimmur við dýr almennt en látið af því um tíma þar til hann hóf að misnota hundana. Nú gæti hann ekki stoppað, sagði hann, né vildi hann það.

Níðingurinn braut gegn eigin hundum og hundum annarra, sem hann falaðist eftir frá einstaklingum sem voru tilneyddir til að gefa frá sér dýrin vegna ofnæmis eða af öðrum ástæðum. Hann sagðist hins vegar gera greinarmun á hundunum.

„Mínir eigin hundar tilheyra fjölskyldunni og ég hef takmörk,“ sagði Britton á Telegram. „Ég fer bara illa með aðra hunda... Ég hef engar tilfinningar til þeirra, þeir eru einfaldlega leikföng. Og það er nóg af þeim.“

Britton var einnig dæmdur fyrir vörslu barnaníðsefnis af verstu sort og þá hefur honum verið bannað að eiga spendýr eða hýsa á landareign sinni svo lengi sem hann lifir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×