Lífið

Að­komu­maður ráfaði inn í hús á Þjóð­há­tíð og lýsti eftir hús­ráðanda

Eiður Þór Árnason skrifar
Bjarni Ólafur Guðmundsson, eða Daddi eins og hann er oft kallaður, hefur lengi verið viðloðinn Þjóðhátíð. Hann hjálpaði föður að finna húsráðanda í Heimaey.
Bjarni Ólafur Guðmundsson, eða Daddi eins og hann er oft kallaður, hefur lengi verið viðloðinn Þjóðhátíð. Hann hjálpaði föður að finna húsráðanda í Heimaey. Aðsend

„Sonur minn var á Þjóðhátíð í Eyjum og hann langar til að finna út í hvaða hús hann fór óvart í og sofnaði í sófa (minnir hann) því hann er miður sín og langar til að afsaka sig innilega.“

Svona hljóma skilaboð ónefnds föður sem greip til þess ráðs að auglýsa eftir húsráðanda þegar sonurinn kom í land eftir líflega verslunarmannahelgi.

„Þetta var á laugardagskvöldinu eftir miðnætti og honum var auðvitað hent út þegar húsráðandi kom að honum sofandi. Hann man ekki hvaða hús þetta var,“ skrifar faðirinn og bætir við að mögulega hafi Scarpa gönguskór í stærð 47 orðið þar eftir ásamt jakka og gráum Boss bakpoka.

Bjarni Ólafur Guðmundsson, Eyjamaður og kynnir á Þjóðhátíð, deildi sögunni á Facebook.

„Þetta er sonur manns sem hafði samband við mig og var að velta fyrir sér hvort ég gæti hjálpað honum að finna aðilann sem hann í rauninni labbaði inn á,“ segir Bjarni.

„Viðkomandi var bara mjög illa áttaður greinilega eftir kvöldið, og var mjög miður sín.“

Fljótlega leystist ráðgátan, samstarfsmaður Bjarna steig fram og hann fékk símtal með afsökunarbeiðni. Á sama tíma fundust fötin sem ungi maðurinn hafði skilið eftir í húsinu. Litlu mátti muna að þau hefðu endað á nytjamarkaði í Heimaey.

„En af því að viðkomandi hafði ekki haft tíma til að fara með það þá var þetta enn þá hjá þeim. Það var meira að segja búið að þvo fötin. Þetta er rosa þjónusta,“ bætir Bjarni við og hlær.

Taktísk mistök

Bjarni segir málið hafa verið leyst án eftirmála og menn læri af reynslunni.

„Við getum kannski flokkað þetta undir taktísk mistök því maðurinn kemur inn í hús hjá öðrum aðila, fer úr skónum og fer úr utanyfirfötunum þannig að hann var greinilega bara að koma heim til sín.“

Það var gul viðvörun vegna veðurs í Eyjum á laugardag.Viktor Freyr

„Við erum bara svo heppin Eyjamenn hvað við erum að fá mikið af góðu fólki til Vestmannaeyja á öllum aldri. Það skiptir ekki máli, fólki verður á mistök og svo leysum við bara úr því. Allavega virðist hátíðin koma vel undan þessu öllu saman þrátt fyrir ótrúlega erfiðar aðstæður á köflum,“ segir Bjarni en veðrið lék illa við Eyjamenn og gesti síðustu helgi.

Sumir misskilið færsluna

Bjarni hefur lengi verið viðloðinn Þjóðhátíð og segir hátíðina skipta íbúa miklu máli. „Menn lenda í því að fara á vitlausa staði og lenda bara í alls konar.“

„Þegar ég birti þetta fyrst á Facebook þá virkaði þetta eins og ég væri að tala um son minn. Það fór aðeins að kvisast um og fólk var að spyrja fólk í kringum mig hvort að sonur minn væri farinn að drekka,“ segir Bjarni léttur. Gott hafi verið að greiða úr þeim misskilningi og finna farsæla lendingu.

Húsráðandi vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.


Tengdar fréttir

Myndaveisla: Playboy lopapeysa og drulluskítugir regnjakkar

Þjóðhátíðargestir 2024 létu slæmt veður ekki á sig fá á Verslunarmannahelginni í ár á 150 ára afmæli Þjóðhátíðar í Eyjum þegar fimmtán þúsund manns sóttu Vestmannaeyjar heim. Viktor Freyr Arnarson ljósmyndari fangaði stemninguna í Eyjum.

Margir urðu brekkunni að bráð

Þrátt fyrir ansi slæmt veður skemmtu langflestir sér vel á Þjóðhátíð í ár að sögn formanns Þjóðhátíðarnefndar. Fimmtán þúsund manns voru í Vestmannaeyjum um helgina og lenti brekkan í Herjólfsdal illa í því sunnudagskvöldið. 

Eyðilögðum tjöldum pakkað saman á gervigrasinu

Um 500 manns gistu Herjólfshöll í Vestmannaeyjum en ákveðið var að skjóta yfir Þjóðhátíðargesti þaki í höllinni vegna þess hve mörg tjöld urðu fyrir tjóni vegna veðursins. Jónas Guðbjörn Jónasson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, segir vel hafa gengið og að gestir hafi gengið vel um.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.