Innlent

Ók á mann og stakk af

Árni Sæberg skrifar
Í dagbók lögreglu segir aðeins að maðurinn hafi verið á hlaupahjóli. Leiða má að því líkur að um rafhlaupahjól hafi verið að ræða. Myndin er úr safni.
Í dagbók lögreglu segir aðeins að maðurinn hafi verið á hlaupahjóli. Leiða má að því líkur að um rafhlaupahjól hafi verið að ræða. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti þremur útköllum í gærkvöldi þar sem slys höfðu orðið á fólki í umferðinni. Þar á meðal var tilkynning um að ekið hefði verið á mann á hlaupahjóli og ekið á brott.

Þetta segir í dagbókarfærslu lögreglu fyrir gærkvöldið og nóttina. Þar segir að 56 málum hafi verið sinnt á milli klukkan 17 í gær og 05 í morgun. Lögregluþjónar á lögreglustöðinni á Hverfisgötu hafi aðeins sinnt tilkynningum á borð við ferðatöskur í óskilum og minniháttar ölvunarmál.

Í Hafnarfirði hafi velt bíl sínum og sé grunaður um að hafa ekið yfir gegn rauðu ljósi og misst stjórn á bílnum. Hann hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku en líðan hans sé óþekkt.

Í Garðabæ hafi verið tilkynnt um aðra bílveltu rétt fyrir miðnætti. Þar hafi orðið eignatjón og minniháttar slys á ökumanni, sem hafi verið fluttur á bráðamóttöku.

Loks segir frá því að í umdæmi lögreglustöðvarinnar á Vínlandsleið hafi verið tilkynnt um umferðarslys þar sem ekið hafði verið á mann á hlaupahjóli. Ökumaður bifreiðarinnar hafi ekki numið staðar og yfirgefið vettvang. Málið sé í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×