Innlent

Fjöru­tíu tonn af eld­fimu fiska­fóðri í stór­skemmdum bílnum

Kolbeinn Tumi Daðason og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Bíllinn var á leið úr Þorlákshöfn þegar eldur kviknaði í honum. 
Bíllinn var á leið úr Þorlákshöfn þegar eldur kviknaði í honum.  Vísir/Kolbeinn Tumi

Eldur sem kviknaði í bílstjórahúsi flutningabíls um klukkan sjö í kvöld dreifði sér í kassa bílsins, en í honum voru fjörutíu tonn af þurru fiskafóðri. Að sögn slökkviliðsmanns stórskemmdist bíllinn sem og vagninn. 

Slökkviliðinu barst tilkynningu um að flutningabíll stæði í ljósum logum á áttunda tímanum í kvöld. Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri í Árnessýslu sagði bílstjórahúsið hafa orðið alelda fyrr í kvöld og dælubíl og tankbíl frá Hveragerði auk tankbíla frá Selfossi og Þorlákshöfn hafi verið kallaðir út. 

„Eldurinn nær í kassann sem hann var með í afturdragi og var með fjörutíu tonn af þurru fiskafóðri, mjög eldfimu“ segir Hafsteinn Davíðsson varðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu í samtali við fréttamann á vettvangi. 

„Við lögðum alla áherslu okkar á að slökkva í kassanum,“ segir Hafsteinn. Hann segir slökkviliðsmenn hafa borað göt á hlið kassans og svokölluðum rekstút verið komið fyrir í götunum til að kæla brunagasið.

Hafsteinn seginn vagninn ónýtan. Vísir/Kolbeinn Tumi

„Og vorum með það þannig í fimmtán til tuttugu mínútur áður en við opnuðum vagninn.“

Töluvert upphreinsistarf var á vettvangi eftir að slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins. Hafsteinn segir slökkviliðsmenn hafa náð að koma í veg fyrir að eldur kviknaði í eldfimu fóðrinu í kassanum. 

Upphreinsistarf á vettvangi.Vísir/Kolbeinn Tumi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×