Erlent

Flug­ferð Icelandair af­lýst vegna mót­mæla á flug­velli

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Loftslagsaðgerðasinnar hafa mótmælt á flugvöllum á Spáni, í Noregi, Finnlandi, Sviss og Þýskalandi. 
Loftslagsaðgerðasinnar hafa mótmælt á flugvöllum á Spáni, í Noregi, Finnlandi, Sviss og Þýskalandi.  EPA

Flugferð Icelandair frá flugvellinum í Frankfurt am Main til Keflavíkur var aflýst í morgun vegna tafa sem urðu þegar loftslagsaðgerðasinnar mótmæltu á flugvellinum. Aðgerðasinnar hafa mótmælt á fjölförnum flugvöllum í Evrópu síðustu daga. 

Guðni Sigurðsson staðgengill forstöðumanns samskipta hjá Icelandair staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Hann segir að flugvellinum hafi verið lokað og flugvél Icelandair sem þegar var á leið þangað hafi verið lent á Frankfurt-hahn flugvellinum. Farþegum þeirrar flugvélar hafi síðar verið skutlað til Frankfurt am Main. 

Aðgerðasinni settist niður á flugbraut vallarins í morgun. „Olía drepur,“ stendur á fánanum en sama slagorð stóð á skiltum mótmælenda á flugvellinum í Köln.EPA

Flugferð Icelandair sem átti að vera farin frá flugvellinum á áttunda tímanum í morgun var aflýst, og farþegum boðið sæti í annarri flugferð, síðdegis í dag eða á morgun. 

Ekki einsdæmi

Svo virðist sem bylgja mótmæla af þessu tagi ríði yfir flugvelli á Evrópu, en aðgerðasinnar þrýsta á þýsk yfirvöld að efna til alþjóðlegra samninga um að hætta notkun á eldsneyti fyrir árið 2030. 

Miklar tafir urðu á flugvellinum í Köln vegna mótmælanna.AP

Í umfjöllun Reuters kemur fram að á Bonn flugvellinum í Köln í Þýskalandi hafi minnst 140 flugferðum verið aflýst í gær vegna slíkra mótmæla. Flugvöllurinn er sá sjötti stærsti í heiminum. 

Þá gerðu aðgerðasinnar tilraun til að tefja fyrir farþegum í innritunarsal Óslóarflugvallar í dag og í gær, en Reuters hefur eftir talsmanni flugvallarins að ekki hafi orðið rask á flugi. Sömu sögu er að segja af flugvöllum í Finnlandi, Noregi, Sviss og á Spáni. 

Lögreglan í London handtók nokkra aðgerðasinna sem hugðust mótmæla á sama hátt í gær á Heathrow-flugvelli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×