Viðskipti innlent

Verð­bólga eykst milli mánaða

Árni Sæberg skrifar
Nokkuð óvænt aukning verðbólgunnar gæti haft áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 21. ágúst.
Nokkuð óvænt aukning verðbólgunnar gæti haft áhrif á vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 21. ágúst. Vísir/Arnar

Vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í júlí 2024, er 633,2 stig og hækkar um 0,46 prósent frá fyrri mánuði. Ársverðbólga er nú 6,3 prósent og eykst um 0,5 prósentustig milli mánaða.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að vísitala neysluverðs án húsnæðis sé 512,9 stig og hækki um 0,45 prósent frá júní 2024.

Sumarútsölur séu víða í gangi og föt og skór hafi lækkað um 6,2 prósent en einnig húsgögn og heimilisbúnaður um 6,2 prósent. Áhrif þess á vísitöluna hafi verið lækkun upp á 0,24 og 0,13 prósent. 

Matvörur hafi hækkað um 1,1 prósent og valdið 0,15 prósenta hækkun á vísitölunni. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, reiknuð húsaleiga, hafi hækkað um 0,5 prósent, áhrif 0,09 prósent, og flugfargjöld til útlanda hafi hækkað um 16,5 prósent, áhrif 0,34 prósent.

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 6,3 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 4,2 prósent.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í júlí 2024, sem sé 633,2 stig, gildi til verðtryggingar í september 2024.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×