Fótbolti

Thomas Müller leggur landsliðsskóna á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Müller hefur ákveðið að segja skilið við þýska landsliðið eftir langan og farsælan landsliðsferil.
Thomas Müller hefur ákveðið að segja skilið við þýska landsliðið eftir langan og farsælan landsliðsferil. Richard Sellers/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Thomas Müller, þriðji leikjahæsti leikmaður þýska landsliðsins frá upphafi, hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna frægu.

Müller greindi frá tíðindunum á samfélagsmiðlum sínum og lét einnig hjartnæmt myndband á Youtube fylgja með. Í myndbandinu stiklar Müller á stóru og fer yfir það helsta sem á daga hans hefur drifið með landsliðinu.

Á 14 ára löngum landsliðsferli lék hinn 34 ára gamlu Müller 131 leik fyrir þýska landsliðið, sem gerir hann að þriðja leikjahæsta leikmanni liðsins frá upphafi. Aðeins Lothar Matthäus og Miroslav Klose hafa leikið fleiri leiki fyrir þýska landsliðið.

Þá skoraði Müller 45 mörk í þessum 131 leik fyrir þýska landsliðið og er þar með sjötti markahæsti leikmaður liðsins frá upphafi, ásamt Karl-Heinz Rummenigge sem einnig skoraði 45 mörk fyrir liðið.

Með þýska landsliðinu varð Müller heimsmeistari árið 2014 og hafnaði í þriðja sæti árið 2010. Hann sópaði einnig að sér einstaklingsverðlaunum með þýska liðinu og varð meðal annars markahæsti leikmaður mótsins á HM 2010 þar sem hann var einnig valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Hans síðasti leikur með landsliðinu var í átta liða úrslitum á EM í Þýskalandi sem lauk í gær, sunnudag. Þá kom hann inn á sem varamaður á 80. mínútu er Þjóðverjar féllu úr leik gegn Spánverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×