Fótbolti

UEFA breytir reglunni um gullskóinn á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins og Spánverjinn Dani Olmo ná forystu í baráttunni um gullskóinn á EM 2024 skori þeir í úrslitaleiknum
Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins og Spánverjinn Dani Olmo ná forystu í baráttunni um gullskóinn á EM 2024 skori þeir í úrslitaleiknum Getty

Knattspyrnusamband Evrópu segir að sex leikmenn muni deila gullskó Evrópumótsins í fótbolta nái enginn að skora sitt fjórða mark í úrslitaleiknum á morgun.

Fyrir aðeins þremur árum þá fékk Portúgalinn Cristiano Ronaldo hins vegar gullskóinn á EM þrátt fyrir að vera með jafnmörg mörk og Tékkinn Patrik Schick.

Nú hafa forráðamenn UEFA ákveðið að breyta reglunni um gullskóinn á EM.

Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins og Spánverjinn Dani Olmo eru tveir af sex leikmönnum sem hafa skorað þrjú mörk í Evrópukeppninni í ár.

Hinir eru Cody Gakpo (Holland), Georges Mikautadze (Georgía), Jamal Musiala (Þýskaland) og Ivan Schranz (Slóvakía) sem allir hafa lokið keppni og bæta því ekki við mörkum á mótinu.

Englendingurinn Jude Bellingham og Spánverjinn Fabián Ruiz hafa skorað tvö mörk í keppninni og eiga því enn smá möguleika á gullskónum.

Nýja regla UEFA er sú að aðeins mörkin ráði. Í síðustu keppni þá var það ein stoðsending Ronaldo sem kom honum upp fyrir Schick. Schick gaf ekki stoðsendingu í keppninni en báðir voru þeir með fimm mörk.

Þrjú mörk dugðu síðast til að vera markakóngur EM fyrir tólf árum þegar Fernando Torres (Spánn), Mario Gomez (Þýskaland) og Alan Dzagoev (Rússland) enduðu allir markahæstir á EM 2012 með þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×