Sport

Danska súperstjarnan grét

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonas Vingegaard átti erfitt með sig eftir frábæran dag. Það hefur verið krefjandi fyrir hann að koma til baka eftir slæmt slys í vor.
Jonas Vingegaard átti erfitt með sig eftir frábæran dag. Það hefur verið krefjandi fyrir hann að koma til baka eftir slæmt slys í vor. EPA-EFE/JEROME DELAY

Danski hjólreiðamaðurinn Jonas Vingegaard hefur unnið Frakklandshjólreiðarnar undanfarin tvö ár en árið í ár hefur reynst honum mjög erfitt.

Vingegaard stórslasaði sig þegar hann skall í jörðina í keppni fyrir nokkrum mánuðum. Það var óttast að hann hefði með þessu misst af möguleikanum á því að vinna stærstu hjólreiðakeppni heims þriðja árið í röð.

Honum tókst hins vegar að ná sér góðum fyrir Frakklandshjólreiðarnar og vann sína fyrstu sérleið í keppninni í gær. Það var ellefta sérleiðin í Tour de France 2024.

Daninn réð ekki við tilfinningar sínar eftir keppni dagsins. „Ég er bara svo ánægður að vera hérna,“ sagði Vingegaard og tárin runnu.

„Það eru auðvitað miklar tilfinningar í gangi hjá mér núna. Að koma til baka eftir slysið ... fyrirgefðu,“ sagði Vingegaard en varð að taka sér smá pásu til að þurrka tárin og ná tökum á sér.

Vingegaard er þriðji í heildarkeppninni en þetta var hans besti dagur síðan að hann lenti í slysinu.

„Þetta skiptir miklu máli eftir allt sem ég hef gengið í gegnum undanfarna mánuði. Ég hefði aldrei getað þetta án fjölskyldu minnar,“ sagði Vingegaard.

Í viðtali fyrr í vikunni talaði Vingegaard um það að hann hafi óttast það að deyja í slysinu.

„Ég bara ánægður að fá að vera hér. Það skiptir svo miklu máli að vinna sérleið. Ekki síst að vinna hana fyrir framan fjölskyldu mína sem stóðu með mér og hvöttu mig áfram allan tímann,“ sagði Vingegaard. Það má sjá viðtalið hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×