Körfubolti

Reiknar með því að hinn fjöru­tíu og tveg­gja ára Hlynur troði á komandi tíma­bili

Aron Guðmundsson skrifar
Baldur Þór er að halda inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta. Hann reiknar með því að geta reitt sig á krafta reynsluboltans Hlyns Bæringssonar innan vallar.
Baldur Þór er að halda inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta. Hann reiknar með því að geta reitt sig á krafta reynsluboltans Hlyns Bæringssonar innan vallar. Vísir/Samsett mynd

Baldur Þór Ragnars­son er nýr þjálfari karla­liðs Stjörnunnar í körfu­bolta. Eftir nokkur ár í þýska boltanum snýr hann heim til Ís­lands, reynslunni ríkari og setur markið hátt. Stjörnu­menn hafa verið dug­legir að bæta við leik­manna­hóp sinn og þá reiknar Baldur með því að reynslu­boltinn Hlynur Bærings­son reimi einnig á sig körfu­bolta­skóna á næsta tíma­bili.

„Bara til­hlökkun sem fylgir því,“ segir Baldur Þór að­spurður hvernig það er fyrir sig að snúa aftur í ís­lenska boltann sem þjálfari en þjálfaði síðast lið Tinda­stóls hér á landi áður en leið hans lá út til Þýska­lands. „Ís­lenski boltinn er skemmti­legur. Þetta er hörku deild, mjög jöfn, skemmti­leg og mörg góð lið. Ég er bara spenntur.“

Þá hefur hann geta fylgst með fram­vindu mála hér heima í efstu deild frá Þýska­landi.

„Það hentaði mér mjög vel að horfa á leiki deildarinnar þegar að ég var úti í Þýska­landi. Ég kláraði æfingu með mínu liði þar, svo fór maður heim og borðaði kvöld­mat, settist í sófann og þá voru oftar en ekki leikirnir að hefjast í Subway deildinni á fimmtu­dögum og föstu­dögum. Maður tók þetta og gat meira að segja horft á körfu­bolta­kvöld líka án þess að fá í taugarnar vegna sér­fræðinganna í settinu.“

Í við­tali á Vísi í mars fyrr á þessu ári opnaði Baldur, sem var þá þjálfari hjá Ratiop­harm Ulm, á endur­komu í ís­lenska boltann. Ljóst var að hann myndi þykja fýsi­legur kostur fyrir mörg lið hér heima en var Stjarnan eina liðið í myndinni?

„Í sjálfu sér var ég líka mikið í því að skoða er­lendan markað. Sjá hvort það kæmi eitt­hvað upp þar. Stjarnan talaði hins vegar við mig mjög snemma. Samninga­við­ræður gengu mjög vel. Það voru því aldrei við­ræður við önnur lið sem ég fór í hér á Ís­landi fyrir utan Stjörnuna.“

Hann segist vera að taka við góðu búi frá Arnari Guð­jóns­syni, fyrr­verandi þjálfara liðsins.

Arnar Guðjónsson þjálfaði bæði karla- og kvennalið Stjörnunnar en hann hefur nú tekið við starfi hjá KKÍ.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

„Arnar hefur verið að þjálfa leik­mennina sem eru að koma upp í starfi Stjörnunnar. Þeir kunna körfu­bolta. Auð­vitað var árangurinn á síðasta tíma­bili ekki eins og menn hér vilja hafa hann. Við erum búnir að fara í breytingar á leik­manna­hópnum fyrir næst­komandi tíma­bil og ætlum okkur að gera betur en að enda í níunda sæti. Það er alveg á hreinu. Arnar hefur gert mjög vel hérna hjá Stjörnunni síðast­liðin sex ár. Liðið er búið að vinna bikar­meistara­titla og klúbburinn er vel drillaður frá yngri flokkum og upp úr.

Duglegir á markaðnum

Kröfurnar í Garða­bænum eru miklar og markið sett hátt. Enda mann­skapurinn góður fyrir góður og þá hafa öflugir leik­menn á borð við Hilmar Árna Hennings­son, Orra Gunnars­son og Bjarna Guð­mann Jóns­son að snúa aftur heim eftir að hafa spilað er­lendis.

„Þeir gefa gæði,“ segir Baldur um nýju leikmenn Stjörnunnar. „Orri er frá­bær skytta sem getur skorað með lítið pláss í kringum sig. Hann er góður á báðum endum vallarins. Það sama gildir um Hilmar. Hann er mjög fjöl­hæfur vængur sem getur skorað á öllum stigum. Hann er með hæð og á­ræðni sem nýtist okkur varnar­lega. Báðir geta verið hluti af liði sem ýtir undir sigra. Svo fengum við Bjarna Guð­mann líka sem er svona mini út­gáfa af Hlyni Bærings­syni. Bar­áttu­hundur sem getur dekkað margar stöður. Skotið boltanum. Leik­maður sem er að koma úr há­skóla­boltanum. Þeir eru að fara styrkja okkur þessir leik­menn. Bara alveg klár­lega.“

Ferð inn í þessa deild til að vinna hana

Milli tíma­bila undan­farin tvö ár hefur þeirri spurningu verið velt upp hvort að hinn fjöru­tíu og tveggja ára gamli Hlynur Bærings­son, reynslu­mesti leik­maður Stjörnu­liðsins og fyrr­verandi at­vinnu- og lands­liðs­maður haldi á­fram að spila. Baldur Þór reiknar með honum á næsta tíma­bili.

„Hann mun svara þessu á endanum sjálfur. Ég var að klára æfingu og hann var á æfingunni. Ég reikna með að hann sé að fara troða næsta vetur.“

Hlynur Bæringsson í baráttunni við varnarmenn Vals á síðasta tímabiliVísir/Bára Dröfn

Vel mannaðir vilja Stjörnu­menn gera at­lögu að toppnum.

„Ef þú ert með þrjá til fjóra lands­liðs­menn í liðinu og færð svo að semja við er­lendan leik­mann með gæði, þá náttúru­lega ferð þú inn í þessa deild til að vinna hana. Þetta er náttúru­lega bara mjög erfið deild. Það eru mörg önnur lið líka með markið hátt. Í deildinni í fyrra voru um níu til tíu lið sem ætluðu að vinna titilinn.“ 

Landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson er á mála hjá Stjörnunnivísir / anton brink

„Það er náttúru­lega bara það sem gerir deildina skemmti­lega og því mjög mikil­vægt að við séum á sömu blað­síðu sóknar- og varnar­lega og að tengingin milli leik­manna sé góð svo við náum að há­marka það sem að við getum fengið út úr okkar leik­mönnum. Þá eru okkur allir vegir færir.“

Eftir nokkur ár er­lendis spyr maður sig. Erum við að fara sjá aðra út­gáfu af þjálfaranum Baldri Þór en við sáum áður en þú hélst út?

„Bara að­eins reynslu­meiri út­gáfa. Ég kom ungur að árum snemma inn í þetta. Er núna kominn með fleiri ár undir beltið. Auð­vitað læri ég fleiri hluti á hverju ári. Búinn með tíma­bil úti þar sem að ég lærði eitt og annað. Það koma ein­hverjir nýir hlutir en svo heldur maður í ein­hverja flotta hluti sem maður lærði áður fyrr og nýtir á­fram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×