Innlent

Tveir í haldi lög­reglu vegna meintrar skotárásar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú málið og mun færa mennina til yfirheyrslu á næstunni.
Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú málið og mun færa mennina til yfirheyrslu á næstunni. vísir

Tveir voru handteknir í aðgerðum lögreglu í Rangárþingi ytra í dag. Lögregla, sem naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra, hefur lokið aðgerðum á vettvangi og rannsókn er á frumstigi. 

Um ágreining milli landeiganda í Rangárþingi ytra er að ræða. 

Fyrr í dag greindi Vísir frá því að sérsveitin hefði verið kölluð á vettvang. Karl Rúnar Ólafsson ábúandi í Háfshverfi í  sagði í samtali við Vísi að nágrannar hans hefðu ógnað vinnumanni á gröfu með byssu og hleypt af skotum. Hvorki aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi né upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra hafa staðfest nokkuð í þeim efnum.

Þorsteinn M. Kristinsson aðalvarðstjóri lögreglunnar á Suðurlandi staðfestir hins vegar að tveir hafi verið handteknir í aðgerðunum. 

„Þeir verða færðir til yfirheyrslu á einhverjum tímapunkti,“ segir Þorsteinn sem getur ekki sagt nánar til um hvenær það verður.

Að öðru leyti vildi Þorsteinn lítið tjá sig um málið. Lögreglan á Suðurlandi hefur lokið aðgerðum á vettvangi. 

„Við erum bara að rannsaka þetta núna,“ segir Þorsteinn. Hann gat ekki sagt til um hvað mennirnir væru grunaðir um á þessum tímapunkti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×