Fótbolti

Dómarinn neitaði að taka í hönd leik­manns eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er óhætt að segja að þeir Christian Pulisic og Kevin Ortega séu ekki miklir vinir.
Það er óhætt að segja að þeir Christian Pulisic og Kevin Ortega séu ekki miklir vinir. Getty/ Jamie Squire

Dómari í leik Bandaríkjanna og Úrúgvæ í Suðurameríkukeppninni neitaði að taka í höndina á fyrirliða bandaríska landsliðsins eftir leikinn.

Christian Pulisic, fyrirliði Bandaríkjamanna, rétti fram höndina til að þakka perúska dómaranum Kevin Ortega fyrir leikinn í leikslok en dómarinn neitaði að taka í höndina á honum.

Það fylgir sögunni að það leit út fyrir að Pulisic hafi verið með einhverjar bendingar og meiningar úr fjarska áður en hann kom til dómarans og rétti fram höndina sína. Það gekk líka mikið á í samskiptum þeirra í leiknum sjálfum.

Bandaríska liðið var mjög ósátt með dómgæsluna í leiknum sem liðið tapaði 1-0. Bandaríkjamenn komust þar með ekki upp úr sinum riðli og eru úr leik.

Sama hvað gekk á í leiknum þá verður að það teljast afar sérstakt þegar dómarinn neitar að þakka leikmanni fyrir leikinn. Það hefur kannski oft verið á hinn veginn.

„Í hreinskilni sagt: Ég var að sjá hluti sem ég hef aldrei séð áður. Ég trúði þessu ekki. Það er samt ekki ástæðan fyrir tapinu. Við erum ekki úr leik vegna dómgæslu,“ sagði Pulisic.

„Í alvörunni samt. Ég var að sjá hluti dæmda þannig að ég vissi í raun ekki á hvað ég var að horfa á. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann var að dæma. Ég veit ekki hver þessi maður er og hann gaf mér enga útskýringu á einu eða neinu. Hann var að gera hluti sem ég get ekki sætt mig við,“ sagði Pulisic.

„Hann vildi ekki einu sinni taka í höndina á mér. Það er eðlilegt,“ sagði Pulisic af kaldhæðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×