Fótbolti

Gerðu mis­heppnaða til­raun til að vekja Austur­ríkis­menn með flug­eldum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Austurríkismenn mæta fullfrískir til leiks eftir ótruflaðan nætursvefn. 
Austurríkismenn mæta fullfrískir til leiks eftir ótruflaðan nætursvefn.  Alex Livesey/Getty Images

Misheppnuð tilraun var gerð til að ónáða austurríska landsliðið í nótt þegar flugeldar voru sprengdir fyrir framan hótel þeirra.

Óprúttnir aðilar kveiktu í nokkuð stuttlífri flugeldatertu. Atvikið átti sér stað um klukkan tvö að staðartíma í nótt og náðist á myndband sem má sjá hér fyrir neðan.

Austurríska knattspyrnusambandið ræddi málið við Kronen Zeitung í morgun og sagði að engir leikmenn liðsins hafi orðið varir við sprengjurnar. Enn fremur taka þeir fram að þjóðerni sökudólganna geti þeir ekki staðfest.

„Þetta mun ekki hafa nein áhrif á leikmennina,“ sagði Klaus Mitterdorfer, forseti knattspyrnusambandsins.

Líkur leiða þó að því að Tyrkir hafi verið að verki enda um nokkuð þekkt bragð er að ræða, sem fjöldi öfgastuðningsmanna (e. ultras) um allan heim hafa tekið upp.

Austurríki og Tyrkland mætast í 16-liða úrslitum Evrópumótsins klukkan 16:00 í dag. Leikurinn verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×