Erlent

Kín­versk geim­flaug hrapaði til jarðar

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Geimflaugin hrapaði til jarðar.
Geimflaugin hrapaði til jarðar. Skjáskot

Eldflaug sem skotið var á loft fyrir slysni við æfingu hrapaði til jarðar rétt fyrir utan borg í Kína í gær og sprakk. Engan sakaði samkvæmt fyrstu rannsókn á vettvangi en stærðarinnar sprenging var á svæðinu.

Dagblaðið Guardian greinir frá þessu á vefsíðu sinni.

Fyrsti hluti geimflaugarinnar Tianlong-3 tók á loft fyrir slysni frá skotpallinum vegna bilunar í tengingunni milli geimflaugarinnar og skotpallsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu Beijing Tianbing, sem á og rekur geimflaugina.

Í myndskeiði af atvikinu má sjá hvernig geimflaugin tekur af stað, missir kraftinn og hrapar til jarðar þar sem hún lendir að lokum á hæðóttu svæði rétt fyrir utan borgina Gongyi í Kína þar sem um 850 þúsund manns búa. Mikil sprenging varð við það að geimflaugin hrapaði til jarðar en á myndskeiðinu má sjá eldtungur teygja sig hátt upp til himins.

Engan sakaði samkvæmt tilkynningu frá viðbragðsaðilum í borginni en sprengingin olli staðbundnum gróðureld í skógarkjarri á hæðinni. Viðbragðsaðilar voru fljótir að ná tökum á eldinum en búið er að ráða niðurlögum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×