Erlent

Leitin að Slater blásin af

Árni Sæberg skrifar
Jay Slater hefur verið saknað í tæpan hálfan mánuð.
Jay Slater hefur verið saknað í tæpan hálfan mánuð.

Allsherjarleit að breska táningnum Jay Slater, sem hófst í gær, hefur verið blásin af. Hans hefur verið saknað á spænsku eyjunni Tenerife síðan 17. júní.

Greint var frá því í gær að lögregluyfirvöld á Tenerife hefðu óskað eftir sjálfboðaliðum til þess að taka þátt í allsherjarleit að Slater.

Leitin fór fram við gönguleiðir nærri bænum Masca og í Rural de Teno þjóðgarðinum, þar sem síðast er vitað um ferðir Slater.

Sky greinir nú frá því að leitin hafi verið blásin af. Haft er eftir lögreglunni að rannsókn málsins sé þó hvergi nærri lokið.

Hinn nítján ára gamli Slater var mættur til Tenerife ásamt vinum sínum til að fara á tónlistarhátíðina NRC. Ekkert hefur spurst til hans frá morgni 17. júní, þegar hann hringdi í vin sinn, sagði honum að hann ætlaði að ganga heim á leið af hátíðinni og að síminn hans væri við það að verða rafmagnslaus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×