Erlent

Sak­felldur fyrir að myrða Emilie Meng

Árni Sæberg skrifar
Emilie Meng fannst látin í stöðuvatni á vesturhluta Sjálands á aðfangadag árið 2016 en hennar hafði þá verið saknað í fimm mánuði.
Emilie Meng fannst látin í stöðuvatni á vesturhluta Sjálands á aðfangadag árið 2016 en hennar hafði þá verið saknað í fimm mánuði. Lögregla í Danmörku

Philip Westh, 33 ára Dani, hefur verið sakfelldur fyrir að myrða hina sautján ára Emilie Meng árið 2016. Hann er einnig sekur um að hafa reynt að nauðga henni og fjölda brota gegn tveimur öðrum stúlkum.

Þetta er niðurstaða dómsins í Næstved á Sjálandi. Refsing Westh verður ákveðin síðar í dag.

Ítarlega var fjallað um mál Emilie Meng þegar hún hvarf í júlí árið 2016. Lík hennar fannst fimm mánuðum seinna í stöðuvatni á Sjálandi á aðfangadegi. Lögregla leitaði logandi ljósi að morðingja hennar en gekk illa í fjölda ára.

Í mars í fyrra var þrettán ára stúlku rænt í bænum Kirkerup, nauðgað ítrekað og haldið fanginni í 27 klukkustundir. Stúlkan fannst á lífi og Westh var handtekinn í kjölfarið. Fljótlega fór lögreglu að gruna að tengsl væru á milli ránsins og morðs Emilie Meng.

Í apríl í fyrra var Westh ákærður fyrir morðið í ofanálag við ákæru fyrir mannrán og nauðganir. Þá var hann ákærður fyrir tilraun til að nauðga Meng.

Í frétt DR segir að Westh hafi verið sakfelldur í nánast öllum ákæruliðum hvað varðar Meng og þrettán ára stúlkuna ásamt ákæru fyrir tilraun til að nauðga fimmtán ára stúlku í Sorø í nóvember árið 2022.

Sem áður segir verður refsing Weths ákveðin síðar í dag.


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir morðið á Emilie Meng

Danskur karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt hina sautján ára gömlu Emilie Meng. Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir brot gegn tveimur unglingsstúlkum til viðbótar.

Telja að maðurinn hafi kyrkt Emili­e Meng

Saksóknarnar í Danmörku telja að 32 ára karlmaður, sem er í haldi lögreglu vegna gruns um að hafa rænt og nauðgað þrettán ára stúlku á Sjálandi í mars, hafi kyrkt hina sautján ára Emilie Meng árið 2016 og komið líki hennar fyrir í stöðuvatni.

„Að­eins skrímsli gæti gert barni þetta“

Danskur karlmaður var í dag ákærður fyrir að nema 13 ára gamla stúlku á brott. Hann er grunaður um að hafa nauðgað stelpunni ítrekað meðan hann frelsissvipti hana í rúman sólarhring. Saksóknari útilokar ekki að hann hafi haft vitorðsmenn. Móðir Filippu segir ómögulegt að setja sig í spor hennar og að fjölskyldan geri allt sem í hennar valdi stendur til þess að styðja hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×