Innlent

Þakk­lát eftir fund með „viljugum“ Bjarna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sylvía Briem Friðjónsdóttir athafnakona og hlaðvarpsstjórnandi átti fund með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra um stöðu foreldra í dag.
Sylvía Briem Friðjónsdóttir athafnakona og hlaðvarpsstjórnandi átti fund með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra um stöðu foreldra í dag. Instagram/Sylviafridjons

Sylvía Briem Friðjónsdóttir, sem síðustu daga hefur vakið athygli bágri stöðu nýbakaðra foreldra í tengslum við leiksólapláss og fæðingarorlof, átti fund með forsætisráðherra í dag og fór yfir stöðuna. 

Í færslu sem Sylvía birti á Instagram í vikunni segist hún hafa fengið ábendingar um gjaldþrot foreldra sem hafi tekið sér fæðingarorlof og spyr hvort það sé orðinn lúxus að fjölga sér. Hún segir kerfið halda konum niðri, þar sem þær taki almennt þungann af fæðingarorlofinu.

Þá beinir hún sjónum að því 6-8 mánaða-bili sem foreldrar þurfi að brúa áður en barn fær almennt pláss á leikskóla.

Sylvía var einnig gestur í Bítinu í liðinni viku þar sem hún lýsti stöðunni nánar. 

Í Instagram sögu Sylvíu í dag má sjá mynd af henni og Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra á fundi. Þar segir hún þau hafa átt klukkutíma vinnufund. 

„Þar sem ég sýndi hvernig kerfisskekkjur varðandi fæðingarorlofið og vistunarúrræði hefur áhrif á allt samfélagið. Lýðheilsulega, efnahagslega en síðast en ekki síst á jafnréttið. 

Ég vil hrósa Bjarna fyrir hvað hann tók vel í þetta og hvað hann er viljugur til að skoða og gera þessi mál betur. Nú fer alls konar af stað, í að greina vandann betur, sem ég er þakklát fyrir,“ segir í sögu Sylvíu.

Instagram/Sylviafridjons



Fleiri fréttir

Sjá meira


×