Innlent

Eld­gosinu lauk á laugar­daginn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Gosið stóð yfir í 24 daga og er það fimmta á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023.
Gosið stóð yfir í 24 daga og er það fimmta á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023. Vísir/Arnar

Eldgosinu við Sundhnúk lauk á laugardaginn. Landris við Svartsengi er þegar hafið á ný og að mati náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni er atburðarásin svipuð þeirri sem áður hefur sést milli gosa. 

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni segir landris við Svartsengi hægara en það hefur verið á svæðinu fyrir síðustu gos að svo stöddu. 

„Það er áfram lítil skjálftavirkni á svæðinu eins og hefur verið og það er áframhaldandi virkni í hrauntungunum sem þegar höfðu komið upp áður en gosinu lauk,“ segir Lovísa Mjöll. Búast megi við að þær skríði áfram þar til þær nái að storkna alveg.

Veðurstofan hefur gefið út nýtt hættumatskort sem gildir til 2. júlí. Farið var niður um hættuskala á þeim svæðum sem gossprungan er. Lovísa segir að kortið verði endurskoðað dag frá degi breytist eitthvað. 

Uppfært hættumatskort frá Lögreglunni á Suðurnesjum. 

Er útlit fyrir að það gjósi aftur eftir nokkrar vikur eins og hefur verið að gerast?

„Það er erfitt að segja til um það en þetta lítur að minnsta kosti út eins og það sé að endurtaka sig en svo verðum við bara að bíða og sjá,“ segir Lovísa Mjöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×