Íslenski boltinn

„Hann var bara góður í þessum leik, öruggur og með allt á hreinu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heimir Guðjónsson hrósaði sínum mönnum fyrir góða frammistöðu.
Heimir Guðjónsson hrósaði sínum mönnum fyrir góða frammistöðu. Vísir/Diego

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var eðlilega hæstánægður með 3-1 sigur sinna mann gegn Fylki í 11. umferð Bestu-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég kom inn á þetta fyrir leik að Fylkismenn eru með gott lið og hafa verið að spila betur og betur eftir því sem hefur liðið á tímabilið þannig við erum hæstánægðir með sigurinn,“ sagði Heimir í leikslok.

„Við komumst sanngjarnt yfir og mér fannst við ráða þessu í fyrri hálfleik, en þeir komu sterkir í seinni og settu okkur undir mikla pressu. Sindri var frábær í markinu og svo komu Gyrðir og Arnór inn í seinni hálfleik og skiptu sköpum fyrir liðið.“

Heimir hélt svo áfram að hrósa Sindra Kristni Ólafssyni, markverði liðsins, fyrir sína frammistöðu.

„Hann bjargaði okkur held ég tvisvar frábærlega. Hann var bara góður í þessum leik, öruggur og með allt á hreinu. Þetta var bara jákvætt fyrir okkur.“

Hann segir einnig að jöfnunarmark Fylkis hafi virkað sem vítamínsprauta fyrir FH-liðið.

„Það virkaði allavega þannig. Þeir voru búnir að liggja svolítið á okkur, voru að senda langa bolta og kröftugir að vinna seinni boltana. Við réðum ekki nógu vel við þetta, en við sýndum góðan karakter eftir að þeir jöfnuðu leikinn og skoruðum tvö góð mörk.“

Að lokum hrósaði hann einnig varamönnunum sem komu inn á í kvöld.

„Gyrðir og Arnór komu inn á og Baldur Kári í lokin og þeir stóðu sig allir mjög vel. Þetta er liðsheildarsport og það þurfa allir að vera klárir þegar kallið kemur og það gekk upp í dag.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×