Fótbolti

Þrí­tugur að­stoðar­maður tekur við besta liði Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pere Romeu þjálfar Barceolona stelpurnar á næstu leiktíð.
Pere Romeu þjálfar Barceolona stelpurnar á næstu leiktíð. @FCBfemeni

Evrópumeistarar Barcelona hafa fundið eftirmann meistaraþjálfarans Jonatan Giráldez. Giráldez hætti sem þjálfari kvennaliðs félagsins eftir tímabilið og tók við bandaríska liðinu Washington Spirit.

Kvennalið Barcelona hefur unnið Meistaradeild Evrópu tvö ár í röð og spænska meistaratitilinn fimm sinnum í röð. Liðið vann tíu af tólf mögulegum í þjálfaratíð Giráldez.

Barcelona leitaði ekki langt yfir skammt til að finna eftirmann Giráldez. Börsungar ákváðu að ráða hinn þrítuga Pere Romeu.

Romeu var áður aðstoðarmaður Giráldez og hefur skrifað undir tveggja ára samning.

Giráldez fékk einnig stöðuhækkun þegar hann tók við liðinu af Lluis Cortes árið 2021. Það gekk upp og nú á að hafa sama háttinn á. Romeu kom inn í þjálfararteymið árið 2021 en hefur einnig þjálfað lengi í akademíu félagsins. Hann vann þar meðal annars með ungstirninu Gavi.

Barcelona hafði áður tilkynnt um komu tveggja öflugra leikmanna eða enska markvarðarins Ellie Roebuck frá Manchester City og pólska sóknarmannsins Ewu Pajor frá Wolfsburg.

Barcelona borgaði Wolfsborg um fjögur hundruð þúsund evrur fyrir Pajor eða rétt tæpar sextíu miljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×